Málþing um menningar- og söguferðaþjónustu: Þar liggur hundurinn grafinn
Menningar- og söguferðaþjónusta á Austurlandi og tækifæri innan hennar verður í brennidepli á málþingi sem haldið verður á Hótel Héraði á morgun, miðvikudag milli klukkan 16:00 og 18:00.
Málþinginu stýrir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar. Framsöguerindi flytja þau Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem segir frá afþreyingu sem upplifun í Áfangastaðnum Austurlandi og Elsa Guðný Björgvinsdóttir, forstöðukona Minjasafns Austurlands, sem flytur erindið „Eru þetta ekki allt sömu strokkarnir?” – menningarminjasöfn sem áfangastaðir.
Nemendur í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands sem eru á ferð um Austurland þessa dagana fjalla um áhugaverð verkefni annars staðar og ræða það sem þau hafa séð í vettvangsferð sinni. Í lokin verða síðan pallborðsumræður með þátttöku Sumarliða Ísleifssonar, lektors við HÍ og forsvarsmönnum setra og safna á Austurlandi.
Að málþinginu standa: Gunnarsstofnun, Háskóli Íslands, Minjasafn Austurlands, Austurbrú, Skálanes, Safnastofnun Fjarðabyggðar, Óbyggðasetur Íslands og fleiri austfirsk söfn og setur. Málþingið nýtur stuðnings úr Uppbyggingarsjóði Austurlands.
Málþinginu verður streymt beint á youtube.com/skriduklaustur.