Teigarhorn búið undir að geta tekið við sextíu þúsund gestum á ári

Gert er ráð fyrir að lágmarki 60 þúsund gestir muni sækja Teigarhorn heim árlega í nýju deiliskipulagi fyrir svæðið sem Skipulagsstofnun hefur staðfest. Hluti af framkvæmdum á svæðinu felst í að færa Hringveginn frá bænum.

Í dag liggur vegurinn 50 metra frá íbúðarhúsinu og 30 metra frá fjárhúsi. Hann liggur einnig hátt í landinu sem þýðir að aðkoman að Teigarhorni er brött auk þess sem á honum eru blindhæðir og blindbeygjur.

Samkvæmt skipulaginu verður vegurinn færður ofar í landið, upp fyrir svokallaðan Langaklett. Þannig færist hann fjær húsunum og hinum vinsæla útsýnisstað í Eyfreyjunesvík.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að fjármagn verði sett í að færa veginn á árunum 2023-2026. Þá er í skoðun að færa brúna yfir Búlandsá, sem er nokkru innar, ofar í landið sem lagi aðkomuna að brúnni sem er einbreið í dag.

Deiliskipulagði miðar við að minnsta kosti 60 þúsund gestir sæki Teigarhorn heim á hverju ári. Í greinargerð með skipulaginu segir að fáir staðir af sambærilegri stærðargráðu búi yfir jafn fjölbreyttu aðdráttarafli, þar séu jarðminjar á heimsmælikvarða, einstaklega fallegir staðhættir og menningarminjar.

Til samanburðar má nefna að 62 þúsund manns heimsóttu Hengifoss, vinsælasta viðkomustað Austurlands, árið 2016. Það ár komu tæplega 2400 manns við á Teigarhorni. Fjöldi gesta þar hefur hins vegar margfaldast síðan ríkið keypti jörðina árið 2013.

Til að taka á móti þessum fjölda er fyrirhuguð uppbygging á jörðinni. Meðal annars stendur er gert ráð fyrir 770 fermetra þjónustumiðstöð þar sem útihús eru í dag. Gert er ráð fyrir að útlit miðstöðvarinnar byggi á fjárhúsunum.

Frá Teigarhorni. Mynd: Djúpavogshreppur


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar