Telja aðferðir Villikatta ekki standast lög um dýravelferð

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs hafnar því að sveitarfélagið fari ekki að lögum við föngun villikatta. Álit eftirlitsstofnana hafi verið eindregið um að ekki væri hægt að nýta aðferðir félagsskaparins Villikatta í átaki gegn villiköttum í þéttbýlinu.

Sveitarfélagið hefur ákveðið að hefja átak í fögnun villikatta á mánudag, 18. febrúar, sem stendur til 8. mars. Ákveðið var að ráðast í átakið eftir að ósk um aðgerðir barst frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands.

Austurfrétt hefur fengið staðfestingar bæði hjá eftirlitinu og sveitarfélaginu að kvartanir hafi borist frá íbúum vegna villikatta. „Það er ástæðan fyrir beiðni Heilbrigðiseftirlitsins. Það eru dæmi um að eigendur heimiliskatta hafi þurft að láta sauma sár þeirra eftir ryskingar við villiketti,“ segir Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

„Sem betur fer hafnað“

Fyrirhugaðar aðgerðir hafa vakið hörð viðbrögð meðal kattavina. Þannig birtist færsla í gær á alþjóðlega umræðuvefnum Reddit þar sem fólk er hvatt til að sniðganga Fljótsdalshérað. Hún hefur síðan verið fjarlægð.

Félagasamtökin Villikettir Austurlandi hafa gagnrýnt aðgerðir Fljótsdalshéraðs og boðið fram aðstoð sína við fanga villikettina og gelda þá og annað hvort venja þá við fólk og finna þeim nýtt heimili, að öðrum kosti sleppa þeim aftur án hættu að þeir fjölgi sér frekar. Þá sé þeim sinnt með matargjöfum, skjóli og eftirliti með heilsu.

Björn segir að eftir að erindi frá félaginu barst í fyrra hafi umsögn um aðferðafræðina verið fengin frá Matvælastofnun, sem sinnir eftirliti með dýravelferð og heilbrigðiseftirlitinu. „Við höfum reynt að taka faglega á þessu og þær niðurstöður sem við fengum voru afdráttarlausar.“

Álit dýraeftirlitsmanns MAST er að aðferðir Villikatta brjóti gegn lögum um dýravelferð og reglugerðir um merkingu katta. Sveitarfélagið hafi „sem betur fer“ hafnað samstarfi við Villiketti.

Talsmenn Villikatta hafa lýst því yfir að þeir séu hafi náð samstarfi við önnur sveitarfélög um föngun villikatta. Björn segist ekki hafa kynnt sér það sérstaklega en segir það sérstakt ef aðrir hafi komist að annarri niðurstöðu. Í áliti MAST er gagnrýnt að aðferðir Villikatta hafi verið teknar upp annars staðar, í trássi við lög.

Virðist vanta upp á skráningar

Í aðdraganda átaksins hafa kattaeigendur í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði verið hvattir til að skrá ketti sína hjá sveitarfélaginu, eins og reglur gera ráð fyrir. Samkvæmt yfirliti á heimasíðu sveitarfélagsins eru um sjötíu kettir skráðir. „Við höfum á tilfinningunni að hér sé töluvert af óskráðum köttum og þess vegna hvetjum við fólk til að skrá þá.“

Í færslu á Facebook-síðu Villikatta Austurlandi er greint frá því að undanfarið ár hafi samtökin handsamað 54 villiketti á Fljótsdalshéraði. Aðeins sex hafi verið sleppt aftur út í náttúruna, 48 hafi verið fundið nýtt heimili.

Aðspurður sagðist Björn ekki efast um fullyrðingar félagsins um að köttunum hefði verið komið í skjól. Skráningum katta hefði hins vegar ekki fjölgað að sama skapi sem benti til þess að þeim hefði verið fundin heimili annars staðar en í þéttbýlinu á Héraði.

Gremst að einstakir starfsmenn séu dregnir inn í umræðuna

Í yfirlýsingu sem Fljótsdalshérað sendi frá sér í dag, og undirrituð er af bæjarstjóra, segir að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi við föngunina og vinnulag og verkferlar mótist af gildandi lögum og reglum um dýravelferð. Fullyrðingar um annað eigi ekki við rök að styðjast.

Þar er enn fremur harmað að ákveðnum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum sé beitt til að halda hugmyndum um annað á lofti. Í samtali við Austurfrétt sagðist Björn ekki hafa fylgst sérstaklega með umræðunni á samfélagmiðlum en sumt af því sem hann hefði séð þar væri ekki málstað kattavina til framdráttar.

Hann kvaðst ekki geta svarað því hvort umræða á miðlum eins og Reddit skaðaði sveitarfélagið en neikvæð umræða væri aldrei til framdráttar, hvaðan sem hún kæmi. Gremjulegast væri þegar einstakir starfsmenn sveitarfélagins, sem væru að gera sitt besta, væru nafngreindir og ekki vandað til verka í umfjöllun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.