Telja lofsteininn hafa sprungið sunnan við Jan Mayern

Stjörnufræðingur telur að loftsteinninn sem sást fyrir rúmri viku yfir Austurlandi hafi sprungið sunnan við Jan Mayern. Hann hafi verið um margt sérstakur.

Í fyrsta lagi var hann óvenju bjartur, svo að sjónarvottum brá við þótt um dag væri. Í öðru lagi virtist steinninn fara lárétt yfir en ekki skáhallt niður eins og algengast er. Í þriðja lagi sást hann lengur en gengur og gerist, í allt að 20 sekúndur,“ skrifar Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur hjá Háskóla Íslands.

Þorsteinn hefur nú birt samantekt um loftsteininn á vef almanaks Háskóla Íslands.

Steinninn sást víða af Austurlandi klukkan kortér yfir þrjú á þriðjudag í síðustu viku. Austurfrétt greindi frá honum daginn eftir og ræddi þá við sjónarvott á Breiðdalsvík.

Í kjölfarið bættust við frásagnir fleiri Breiðdælinga og íbúa á Höfn í Hornafirði, meðal annars í gegnum athugasemdakerfi Austurfréttar. Þeim upplýsingum var komið áfram til Þorsteins. Áður hafði borist frásögn sjónarvottar í Reyðarfirði.

Þá barst lýsing frá flugstjóra vélar sem flaug skammt frá Scorebysund á Grænlandi á leið í Akureyrar. Flugmennirnir sáu bjart, grænt ljós í svipaðri hæð og vélin, sem var í um 3000 metra hæð, fara lárét frá hægri til vinstri á 15-20 sekúndum og splundrast í lokin.

Í samantekt Þorsteins segir að lýsingarnar dugi ekki til að reikna braut loftsteinsins með neinni nákvæmni en líkur bendi til að hann hafi sést fyrst suðvestan við Ísland, farið yfir miðhálendið og sprungið sunnan eða suðaustan við Jan Mayen.

„Hann hefur líklega verið nálægt 80 km hæð þegar hann sást fyrst, en verið kominn í 30 km hæð eða svo þegar hann hvarf. Meðalhraði hans á þessari leið hefur líklega verið um 60 km á sekúndu. Þetta hefur verið stór steinn eftir birtunni að dæma, hugsanlega um tonn að þyngd,“ ritar Þorsteinn en bendir þó á að öllum tölunum beri að taka með fyrirvara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.