Telja varnargarðana og landslagið verja húsin fyrir skriðu

Rýmingu var í gær aflétt af fjórum húsum af níu sem rýmd voru fyrir átta dögum við Búðará á Seyðisfirði vegna framskriðs jarðvegsfleka ofar í hlíðinni. Talið er að varnarmannvirki og landslag verndi öll húsin, auk þess sem flekinn er að molna í sundur, en réttara þykir að fara varlega. Loks hægir á framskriðinu.

Sérfræðingar eyddu helginni í að reikna út stærð svæðisins sem verið hefur á hreyfingu síðustu tíu daga, líklegt framhlaup þess og mögulega varnarmannvirkja á að vernda byggðina. Niðurstaðan var sem fyrr segir að rýmingu var aflétt af um helmingi húsanna.

„Okkur reiknast til að varnargarðarnir sem komnir eru, þótt þeir hafi ekki náð fullri hæð, haldi af skriðufalli af þeirri stærð sem þarna er á ferðinni í skefjum.

Ef allt væri af stað í einu yrði smá yfirflæði en við teljum það ekki hættulegt,“ segir Tómas Jóhannesson, sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands. Hann fór yfir stöðuna á íbúafundi með Seyðfirðingum í gærkvöldi.

Um 15-25 þúsund rúmmetrar af efni

Undanfarna tíu daga hefur verið fylgst með framskriði jarðvegsfleka við utanverða Búðará. Mælitæki sýna að hann hefur færst um 15 sm. þar sem mest er á þessum tíma. Eftir gagnasöfnun og útreikninga síðustu daga er áætlað að skriða yrði á bilinu 15-25 þúsund rúmmetrar færi flekinn allur af stað. Það er um þriðjungur stóru skriðunnar sem féll á Seyðisfjörð 18. desember en hún var um 70 þúsund rúmmetrar.

Flekinn er efst í innanverðu skriðusárinu. Ekki kemur á óvart að hann hafi varið á hreyfingu. „Við vissum að þessir lóðréttu bakkar kringum skriðusárið væru ekki stöðugir til langframa og myndu hrynja niður í skálin. Landið tekur síðan á sig stöðugra form eftir því sem hallinn minnkar,“ útskýrir Tómas.

Landslagið að öllu leyti betra nú

Talið er líklegt að skriða af þessu svæði hegðaði sér svipað og stóra skriðan, sem klofnaði á landslaginu sem kennt hefur verið við húsið Múla þannig það og næstu hús, sem nú voru rýmd, sluppu.

Búið er að moka efninu sem féll í Búðaránna í desember upp og ýta því bæði þar og annars staðar upp í varnargarða. „Við teljum landslagið að öllu leyti betra núna. Garðarnir veita mikla viðbótarvernd,“ segir Tómas.

Fleiri jákvæð teikn sjást núna. Hraðinn á framskriðinu jókst eftir mikla rigningu á fimmtudagskvöld en mælingar næturinnar sýna að loks er farið að hægja á því. „Staðan nú er hreyfingin er farin að hægja á sér,“ sagði Tómas í samtali við Austurfrétt fyrir hádegi.

Þá sýna mælingar og athuganir að jarðvegsflekinn sígur í sundur á ýmsum sprungum en hann var áður allur á ferðinni. Að auki er engin hreyfing annars staðar á hlíðinni, til dæmis ekki á stórum flekum utan við skriðusárið. „Það eru góðar fréttir. Við teljum líklegast að efnið gefi sig á þessum sprungum og það steypist úr brattanum í fyllum eða smærri einingum.“

Frekari ákvörðun um afléttingu síðar í dag eða morgun

Fullyrðingar um að landslag og varnargarðarnir verndi byggðina við Búðará byggja á athugunum, útreikningum og tölvulíkönum sem búið er að vinna og keyra síðustu daga. Aðspurður viðurkennir Tómas að alltaf sé ákveðin óvissa fyrir hendi í slíkum útreikningum. Þess sé sjónarmið, bæði sérfræðinga og íbúa, að fara að öllu með gát og rýma séu líkur taldar á meiriháttar skriðufalli, líkt og hafi verið í síðustu viku. Þess vegna sé heldur ekki búið að aflétta rýmingu á öllu svæðinu þótt yfirgnæfandi líkur séu á að allt sé í lagi innan varnargarðanna. „Þótt óvissa sé um hvort stykkið sé 15 eða 25 þúsund rúmmetrar þá förum við ekki fjarri því.

Búið er að bæta við speglum í jarðvegsflekann og verið er að tengja þá við landmælingatæki. Að auki verður í vikunni komið fyrir speglum í Þelaurð, sem er nokkuð ofar í fjallinu. Sérfræðingar Veðurstofunnar og almannavarnir funda um stöðuna síðan í dag. Frekari ákvarðanir um afléttingu rýmingar verða teknar þá eða á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.