Telja vegfarendur tilbúna að greiða fyrir mikla vegstyttingu með nýjum Axarvegi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Frumvarpið opnar á fjármögnun einstakra framkvæmda með veggjöldum. Nýr vegur yfir Öxi er meðal þeirra framkvæmda sem stendur til að ráðast í með slíkri fjármögnun verði frumvarpið að lögum. Fyrirhugað er að fjármagna jarðgöng á Austurlandi á svipaðan hátt.

Með samvinnuverkefni er átt við samgönguverkefni þar sem einkaaðilar annast fjármögnum við gerð eða rekstur samgöngumannvirkis í heild eða að hluta. Gerður er samningur um samstarfið og með honum verður Vegagerðinni heimilt að fela einkaaðilum að taka gjald af umferð um leiðina á samningstímanum. Þá mun Vegagerðin einnig geta stofnað sérstakt félag, eða falið sérstöku félagi í eigu ríkisins, innheimtuna eða einstaka þætti samvinnuverkefnisins.

Gjaldtakan hefst ekki fyrr en mannvirkið hefur verið opnað fyrir almennri umferð og skal ekki sanda lengur en í 30 ár. Á samningstímanum getur eignahald mannvirkjanna verið hjá einkaaðilanum en í lok samningstímans teljast þau eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

Gert er ráð fyrr að heimilt verði að bjóða út sex framkvæmdir með þessu formi og er nýr vegur yfir Öxi ein þeirra. Í greinargerð frumvarpsins segir að stórar og vel skilgreindar nýframkvæmdir henti vel sem samvinnuverkefni.

Bæði er um að ræða stórar framkvæmdir á borð við Sundabraut en hins vegar minni verkefni sem teljast fela í sér mikinn ábata í formi styttri ferðatíma þar sem önnur leið er í boði. Öxi fellur í síðarnefnda hópinn.

Vegurinn yfir Öxi er 22 km langur en styttir leiðina milli Djúpavogs og Egilsstaða um 68 km miðað við núverandi legu þjóðvegar 1 um firði. Í greinargerðinni segir um leiðina að um sé að ræða mikla vegstyttingu sem leiði til mikils greiðsluvilja.

Umferðarmagnið þykir ekki mikið, 220 bílar á dag, en vegna þess hve mikil styttingin er er talið að umferðin geti staðið undir að minnsta kosti helmingi fjármögnunar einkaaðila.

Tekið er fram að þótt nauðsynlegt að framkvæmdirnar séu vel skilgreindar sé nauðsynlegt að gefa einkaaðilum færi á að koma með athugasemdir á undirbúningsstigi sjái þeir möguleika á að bæta mannvirkið.

Þá kemur einnig fram að undirbúningur framkvæmdanna sex er mislangt á veg kominn. Í tilfelli Axarvegar er umhverfismati lokið og veglína staðfest í skipulagi Djúpavogshrepps og Fljótsdalshéraðs. Er þar um að ræða veglínu nefnd var lína G, hún liggur nokkuð austar uppi á háheiðinni, fylgir núverandi vegstæði að hluta niður í Berufjörð áður en farið er yfir komið er niður í hann að sunnanverðu, öfugt við það sem nú er. Önnur veglína var sett fram í aðalskipulagi en legu breytt árið 2014 með hliðsjón af mati á umhverfisáhrifum. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að endanlegri verkhönnun sé ekki lokið. Áætlaður kostnaður er áætlaður 4 milljarðar króna á núverandi verðlagi.

Þá kemur fram í greinargerðinni að á vegum samgönguráðuneytisins sé nú verið að kanna, í samstarfi við Vegagerðina, forsendur fyrir því að jarðgöng á Austurlandi, þar sem Fjarðarheiðargöng yrði fyrsti áfanginn, verði fjármögnuð með sama hætti og verkefnin sex. Til þess þyrfti ráðherra síðar meir að leggja fram breytingu á þeirri grein frumvarpsins þar sem framkvæmdirnar eru taldar upp frumvarpinu, verði það orðið að lögum.

Uppfært 7.5.2020 eftir ábendingu um breytta veglínu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.