Telur Jón Björn besta kostinn út kjörtímabilið
Rúnar Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Fjarðabyggð, telur Jón Björn Hákonarson besta kostinn í starf bæjarstjóra það sem eftir er kjörtímabils, líkt og ákveðið var af bæjarráð í gær. Hann segir nýja bæjarstjórann þurfa að leiða erfið mál til lykta.„Ég held að hann besti kosturinn í þetta eina og hálfa ár, frekar en að fara af stað og leita og finna mann sem ekki er inni í neinum málum,“ segir Rúnar sem á sæti í bæjarráði sem áheyrnarfulltrúi.
Í byrjun fundar bæjarráðs í gærmorgun var tekin fyrir beiðni frá Karli Óttari Péturssyni um að fá að hætta strax sem bæjarstjóri og var orðið við því. Fundinum var þá frestað en haldið áfram klukkan 16:00 og þar lá fyrir tillaga um að Jón Björn, oddviti Framsóknarflokks og forseti bæjarstjórnar tæki við.
Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, verður forseti bæjarstjórnar en hættir sem formaður bæjarráðs. Þá stöðu tekur Sigurður Ólafsson, sem var í öðru sæti Fjarðalistans.
Minnihlutinn ekkert fengið að vita
Ekkert hefur verið gefið út um ástæður þess að Karl Óttar óskaði eftir að fá að hætta og Rúnar segir að minnihlutinn hafi engar frekari skýringar fengið frá meirihlutanum í gær. „Við fáum ekkert að vita hvað gerðist. Hann baðst bara lausnar, eða svo segja þau. Svo er annað hvað fólkið á götunni segir. Það gerðist eitthvað á föstudag sem olli þessu,“ segir Rúnar.
Hann segir minnihlutann heldur ekki hafa verið hafðan með í ráðum um næstu skref í gærdag. Ekki hafi verið ræddir aðrir kostir en Jón Björn í stöðu bæjarstjóra. „Þau matreiddu þetta bara ofan í okkur og voru klár klukkan 16. Við vorum ekki spurð um neitt.
Það var ekki fyrr en á heimleiðinni sem maður áttaði sig á hvað Jón Björn og Framsóknarflokkurinn hafa gefið eftir. Fjarðalistinn leiðir bæði bæjarstjórn og bæjarráð sem og eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd og hafnarnefnd. Mér finnst líka skrýtið að forseti bæjarstjórnar sitji ekki í bæjarráði því þar eru teknar stórar ákvarðanir.“
Krefjandi verkefni framundan
Rúnar kveðst hins vegar treysta Jóni Birni til að leiða verkefnin framundan. „Ef við skiljum pólitíkina frá og horfum bara á bæjarfélagið þá er þetta besta leiðin. Hann þekkir þetta mjög vel. Síðan kemur í ljós hvernig hann ætlar að vinna, hvort hann verður pólitíkus eða bæjarstjóri.
Þetta verður örugglega strembið hjá honum til að byrja með. Hann á eftir að klára það sem allt varð vitlaust út af, það er ekki búið. Síðan er fjárhagsáætlunin öll eftir. Þetta er í smá steik núna.“