„Þetta er ólíðandi ástand“

Kirkjuklukkunum víða á Austurlandi verður hringt klukkan fimm síðdegis næstu daga til að vekja athygli á ástandinu í Sýrlandi og til að minnast þeirra sem látist hafa.



Framtakið á upphaf sitt að rekja til finnska prestsins Teemu Laajasalo í Kallio sókn í lútersku kirkjunni í Finnlandi. Honum sveið ástandið og ákvað að klukkum í hans kirkju skyldi hringt daglega 12.- 24. október, en 24. október er dagur Sameinuðu þjóðanna. kirkjur í Svíþjóð, Bretlandi og víða í Evrópu hafa gert slíkt hið sama.

Á Íslandi er klukkum hringt frá 24. til 31. október, en það er siðbótardagurinn. Á Austurlandi verður hringt í Egilsstaðakirkju, Eiðakirkju og Seyðisfjarðarkirkjum og líklega víðar.


„Alþjóðasamfélagið verður að stoppa þetta“

„Okkur svíður þetta öllum, þetta er ólíðandi ástand og alþjóðasamfélagið verður að stoppa þetta. Þetta stríð hefur staðið yfir í fimm ár og aldrei hafa verið svo margir flóttamenn í heiminum, ekki einu sinni í seinni heimstyrjöldinni og enn eru milljónir að bætast við. Við viljum vekja sem mesta athygli á þessu átaki til að alþjóðasamfélagið ranki við sér og krefjist þess að lausn verði fundin. Það getur ekkert réttlætt þjáningar barna og óbreyttra borgara í Aleppo.,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli.

Sigríður segir mikinn áhuga vera fyrir því að taka þátt í viðburðinum og muni fólk skiptast á að hringja klukkunum á Seyðisfirði og á Egilsstöðum. „Við erum svo vanmáttug og vitum ekki hvað við getum gert, en getum þó sýnt þennan samhug.“


http://bellsforaleppo.org/

#BellsForAleppo

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar