„Það er maður þarna með hund“

Vélsleðamenn sem fundu Friðrik Rúnar Garðarsson sem leitað hafði verið að á Héraði síðan á föstudagskvöld segja að ekki hafi mátt tæpara standa áður en aftur gekk á með él og skyggni versnaði þegar þeir fundu hann á göngu í morgun.


Tólf manns á sleðum fóru af stað inn inn Köldukvíslardal, sem liggur milli Héraðs og Fagradals þegar leit hófst í birtingu í morgun. Þeir skiptu sér svo í tvennt, annar hópurinn ætlaði niður dalinn í áttina að Sauðá en hinn inn eftir til fjalla.

Varð glaður að sjá sleðana

Það var síðarnefndi hópurinn sem kom auga á Friðrik Rúnar. „Það var Arnór sem rak augun í hann á stangli uppi á heiði. Hann sá mann með hund og kallaði til okkar: „það er maður þarna með hund,“ sagði Björn Már Björnsson, björgunarsveitarmaður frá Dalvík og einn sleðamanna í samtali við Austurfrétt.

„Við keyrðum þarna sem ein heild svo rak ég augun í mann með hund. Ég spurði strákana hvort við ættum ekki að renna að honum og gerðum það allir saman. Það kom í ljós að þetta var hann,“ segir félagi hans Arnór Rúnarsson.

Maðurinn var á göngu austan í Ketilsstaðaöxlinni sem leið liggur niður Köldukvíslardalinn í áttina að Fagradal þegar sleðamennirnir komu auga á hann.

„Hann var bara þarna á göngu. Hann varð mjög glaður þegar hann sá sleðana,“ segir Björn Már.

Ekki mátt vera mikið seinni

Hópurinn hafði ekki verið lengi á ferðinni en að sama skapi varð að hafa hraðar hendur. „Við vorum ekki búnir að vera nema 20-30 mínútur á leiðinni. Skyggnið var gott þegar við komum að honum en skömmu síðar fór að dimma og snjóa. Við hefðum ekki mátt vera mikið seinni.“

Áætlað er að yfir 400 björgunarsveitarmenn hafi tekið þátt í leitinni sem er ein sú umfangsmesta á Austurlandi í áraraðir. Dalvíkingarnir komu austur í gærmorgun. „Við vorum á sleðum í allan gærdag til klukkan átta kvöldið. Skyggnið var lítið og landslagði erfitt.“

Þeir ítreka að árangur helgarinnar sé heildinni að þakka. „Landsbjörg er heild sem vinnur saman. Þetta eru ekki 2-6 sleðamenn sem eiga heiðurinn. Hann eiga allir.“

Munið eftir símanum

Friðrik Rúnar fór til rjúpnaveiða á föstudagsmorgun ásamt tveimur félögum sínum upp frá sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum. Þeir skildu og töldu þeir sig hafa séð hann síðast á Ketilsstaðahálsi upp úr hádegi þann dag.

Leit hófst um kvöldið þegar Friðrik skilaði sér ekki heim í bústað. Hann hafði meðferðis svartan labrador hund og gróf sig í fönn tvær nætur. Friðrik er menntaður læknir og í samtali við fjölmiðla við komuna til Reykjavíkur í morgun lýsti hann yfir að þeirri skoðun að hann hefði ekki haft þrek í mikið lengri tíma á fjöllum.

Hann hvatti aðrar rjúpnaskyttur og fjallaferðafólk til að læra af mistökum sínum og hafa farsímann með en hann gleymdist í bústaðnum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.