Þarf að finna hvaða aðrir atvinnukostir eru mögulegir á Seyðisfirði

Bæjarstjóri Múlaþings segir ákvörðun Síldarvinnslunnar, um að hætta bolfiskvinnslu á Seyðisfirði, vonbrigði þótt hún komi ekki endilega á óvart. Hann bindur vonir við fyrirheit fyrirtækisins um að styðja við aðra atvinnuuppbyggingu í staðinn.

„Eftir kaupin á Vísi með mjög tæknivæddan og afkastamikinn rekstur sá maður fyrir sér að bolfiskvinnslan á Seyðisfirði tæki enda en við áttum ekki von á að það yrði svona snöggt. Þess vegna eru það okkur mikil vonbrigði að það sé skellt í lás,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings.

Síldarvinnslan tilkynnti í dag um að starfsemi bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði, sem fyrirtækið eignaðist þegar það keypti Gullberg haustið 2014, verði hætt í lok nóvember. Í tilkynningu fyrirtækisins segir að ástæðan sé að uppfæra þurfi tækjakost vinnslunnar verulega í takt við breytingar á fiskmörkuðum. Það kosti fjármuni sem svo lítil eining standi ekki undir.

Heilsársstörf til framtíðar


Þrjátíu einstaklingar missa vinnuna vegna breytinganna. Þeim standa til boða störf hjá öðrum einingum Síldarvinnslunnar á Norðfirði og í Grindavík auk þess sem nokkur störf eru laus við fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði.

Þá hefur Síldarvinnslan lýst yfir vilja til að vinna með Múlaþingi að mótvægisaðgerðum sem byggja upp atvinnu til framtíðar. Byrjað var að ræða þá möguleika á fundi sem Björn sat með Jónínu Brynjólfsdóttur, forseta bæjarstjórnar, Vilhjálmi Jónssyni, formanni byggðaráðs og Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, eftir hádegi í dag.

„Stóra málið fyrir okkar samfélag er að þarna verði heilsársstörf til framtíðar. Í okkar samtali kom fram að það er fullur hugur hjá Síldarvinnslunni í að koma að því með sveitarfélaginu að finna framtíðarlausnir í atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði en ekki bara loka og fara. Það var rætt að einhverjir starfsmanna gætu komið að slíkum uppbyggingarverkefnum.

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið og við höfum rætt það innanhúss að þörf væri að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu á Seyðisfirði.“

En viðbúið er að lokunin hafi áhrif á aðra starfsemi á Seyðisfirði. „Við höfum ekki tölur um afleidd störf en einhvers konar iðnaður leiðir alltaf af sér önnur störf,“ segir Björn.

Áfram fundað næstu daga


Áfram verður fundað um málið næstu daga. Vinnslunni verður hætt 30. nóvember en starfsfólkinu hefur verið lofað launum út janúar.

„Niðurstaðan í dag var að hald samtalinu áfram til að reyna að sjá hvaða kostir séu til staðar og hvernig annars vegar sveitarfélagið, hins vegar Síldarvinnslan, geta komið að þeirri framtíðar vinnu. Ég sé fyrir mér að við munum reyna að setjast niður með heimafólki. Það er von á að við fundum með fulltrúum úr heimastjórn á næstu dögum.“

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar