Þátttaka í Klifurhátíðinni á Seyðisfirði langt umfram væntingar

Klukkan 16 í dag hefst allra fyrsta Klifurhátíðin á Seyðisfirði en að undirbúningi hennar hefur verið unnið sleitulítið í rúmt ár. Skipuleggjendur gerðu sér vonir um að 50 klifurkappar tækju þátt en nú þegar skráningu er lokið er sú spá fokin út í veður og vind. Fjöldinn telur rúmlega 120 keppendur.

Hátíð þessi, sem vonir standa til að verði árleg héðan í frá, er afsprengi vinnu þeirra Jafets Bjarka Björnssonar og Ásrúnar Mjallar Stefánsdóttur með góðri hjálp frá vinum. Sjálfur hefur Jafet verið nánast í fullri vinnu frá því í vor að setja upp nýjar klifurleiðir beggja megin í firðinum og fjöldi boltaðra leiða nú kringum 50 talsins.

Keppnin sjálf stendur frá klukkan 16 í dag til klukkan 19 annað kvöld en á því tímabili þurfa keppendur að klífa eins margar leiðir og þeir geta. Stig fást fyrir hverja leið og hvort það tekst að ljúka klifri í fyrstu atrennu. Leiðirnar miserfiðar líka og punktafjöldinn mismunandi fyrir þær.

Setja traust á heiðarleika klifrara

Ásrún Mjöll segir að í klettaklifursamfélaginu sé reglan að treysta fólki til að fara rétt með enda ógjörningur nánast að vakta alla keppendur. Það verði einnig svo nú.

„Það er afskaplega gleðilegt hversu þátttakendafjöldi er langt umfram það sem við gerðum ráð fyrir þegar þessu var komið á laggirnar. Við vorum fljót að gera sérstakar ráðstafanir þess vegna um leið og við sáum í hvað stefni og tryggðum til dæmis að stærra svæði á tjaldsvæðinu verði tekið frá fyrir keppendur. Þannig að þetta verður alls ekki vandamál.“

Það er Ásrún sem hefur skipulagt nánast allt annað en klifurleiðirnar sjálfar og hún býður keppendum upp á sánabað, sjósund og varðeld síðar í kvöld og áður en keppni hefst í fyrramálið verður morgunjóga plús kaffi og snúðar áður en keppni hefst að nýju. Lokahóf hefst svo klukkan 21 annað kvöld á Öldunni.

Lítið mál að fylgjast með

Aðspurð hvort áhugasamir geti með góðum hætti fylgst með keppendum reyna sig við klettana segir Ásrún það lítil mál. Margar klifurleiðirnar sjáist neðan frá úr bænum eða frá vegum og þá sé það regla frekar en undantekning að klettaklifurfólk er jafnan í litríkum og áberandi klæðnaði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar