Þjónustuhús risið á Vatnsskarði

Síðastliðinn föstudag var tekið í notkun þjónustuhús á Vatnsskarði sem einkum er ætlað ferðalöngum á leið í Stórurð. Húsið er eitt skrefið í uppbyggingu svæðisins.


Það voru sveitarstjórarnir Jón Þórðarson, Borgarfirði og Björn Ingimarsson, Fljótsdalshéraði sem klipptu á borða og opnuðu þar með húsið. Það er í tvennu lagi, annars vegar upplýsingahús með skiltum, hins vegar salernishús.

Óðinn Gunnar Óðinsson, atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi Fljótsdalshéraðs sagði við opnunina að með uppbyggingu á svæðinu sé „römmuð inn perla sem áhugaverður segull fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn, í leit að sérstæðri náttúruupplifun.

Hér er að verða til gæðaáfangastaður sem getur nú og í nánustu framtíð uppfyllt alla þætti um sjálfbærni og stuðlað að dreifingu gesta, með áherslu á gönguferðamenn er sækjast eftir lítt snertum víðernum Íslands í skipulögðum ferðum eða á eigin vegum.“

Undanfarin þrjú ár hafa verið stikaðar gönguleiðir á svæðinu og komið fyrir vegvísum. Frekari verkefni bíða svo sem að finna leiðir til að draga úr áhrifum mikillar umferðar gangandi fólk um náttúru svæðisins, til dæmis með að að lagfæra eða færa til gönguslóðana þar sem náttúran er viðkvæmust eða brúm og upplýsingum í Stórurðinni sjálfri.

Gert er ráð fyrir að húsið sé opið frá sumarbyrjun og fram á haust. Það norðan megin í skarðinu með útsýni yfir Úthérað.

Húsið var hannað af norska arkitektinum Erik Rönning Andersen að undangenginni hönnunarsamkeppni og sækir innblástur til Dyranna í Dyrfjöllum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar