Þörf á tveimur stuðningsfjölskyldu fyrir hverja fjölskyldu á flótta

Deildir Rauða krossins í Fjarðabyggð undirbúa þessa dagana að taka á móti fjórum flóttamannafjölskyldum sem væntanlegar eru til sveitarfélagsins upp úr miðjun febrúar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hjálpa flóttamönnunum út í samfélagið.

„Hlutverk okkar er að styðja við bakið á þessum fjölskyldum. Við verðum með sjálfboðaliða sem verða stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið og á næstu dögum verður ráðinn verkefnastjóri sem verður í tengslum við flóttafólkið.

Þessu fólki er ætlað að hjálpa flóttafólkinu við að finna réttu leiðirnar í samfélaginu,“ segir Björn Ármann Ólafsson, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Austurlandi.

Von er á 19 flóttamönnum frá Írak, eða fjórum fjölskyldum, sem dvalið hafa í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Mestur þunginn af móttökunni er á sveitarfélaginu Fjarðabyggð sem útvegar húsnæði, en reiknað er með að fjölskyldurnar verði í Neskaupstað og á Reyðarfirði. Hlutverk Rauða krossins er einnig skilgreint í samningi við velferðarráðuneytið sem heldur utan um komu fólksins.

Björn Ármann segir að vonast sé til að verkefnastjóri verði ráðinn í næstu viku, fundað verði með félagsmálasviði Fjarðabyggðar á næstu dögum og fljótlega auglýst eftir stuðningsfjölskyldum. Áhugasamir geta haft samband við deildir Rauða krossins í sínum heimabæ eða svæðisfulltrúann. Reiknað er með að tvær fjölskyldur þurfi til stuðnings hverrar fjölskyldu á flótta.

Þá er verið að undirbúa borgarafundi um komu flóttafólksins. Tímasetning þeirra verður ákveðin í næstu viku og verða fundirnir haldnir mjög fljótlega, enda skammur tími til stefnu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.