Þrír dagar án smits

Ekkert nýtt Covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi síðan á sunnudag. Eftir sem áður eru átta virk smit og 26 manns í sóttkví í fjórðungnum.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar kemur fram að jákvætt sé að ekki hafi greinst smit síðan um helgi. Í besta falli sé það vísbending um að tekist hafi að hægja á eða stöðva þá þróun sem byrjuð var.

Of snemmt sé þó að fagna sigri. Hversu hröð málunin varð sýnir mikilvægi varkárni í hvívetna, hvar sem fólk sé statt.

Aðgerðastjórnin hvetur Austfirðinga til að sækja farsímaforritið Rakning C-19 sem mjög hefur hraðað vinnu við smitrakningu. Hægt er að sækja forritið í gegnum vefinn Covid.is.

Von er á Norrænu til Seyðisfjarðar í fyrramálið í síðustu ferð hennar samkvæmt sumaráætlun. Allir þeir sem koma til landsins þurfa nú í 5-6 daga sóttkví og tvær skimanir. Þær reglur tóku gildi á miðnætti. Í tilkynningunni segir að nokkuð hafi borið á afbókunum vegna hertra reglna. Því verði farþegar töluvert færri en í síðustu ferðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.