Þrýsta á framkvæmdir við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum
Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hefur falið framkvæmdastjóra sínum að þrýsta á um að undirbúningi og framkvæmdum við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum verði fram haldið nú þegar.
Bókun þessa efnis kom upphaflega fram hjá áheyrnarfulltrúa á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings snemma í síðasta mánuði. Þar fór Hannes Karl Hilmarsson úr Miðflokknum þess á leit að ráðið samþykkti bókun um að ýtt skyldi á eftir gerð nýrrar brúar þrátt fyrir að brúin sé ekki innan marka Múlaþings.
Brúin sem um ræðir er einbreið hengibrú sem opnuð var umferð árið 1947 eða fyrir 76 árum síðan. Búið var að vinna töluvert að undirbúningi nýrrar brúar og nánast komið að útboði verksins þegar mikið krapaflóð í byrjun árs 2021 setti þær áætlanir í uppnám og þær verið á ís síðan.
Hannes Karl lét bóka að brúin sé mikilvægur hlekkur í samgöngukerfi Austurlands en þungatakmarkanir hafa lengi haft áhrif á flutninga til og frá Austurlandi með tilheyrandi tekjutapi og neikvæðu kolefnisspori enda algengt að bílar með þungan farm þurfi beinlínis að sneiða hjá núverandi brú og fara krókaleiðir með farm sinn.
Undir þetta tók umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings einum rómi og hvatti bæði samtök sveitarfélaga á Austurlandi og Norðurlandi eystra til að þrýsta á um málið. Undir þetta tók stjórn samtaka sveitarfélaga á Austurlandi á fundi sínum síðar og framkvæmdastjóri þess vinnur það nú áfram með kollegum af Norðurlandi eystra.
Mynd tekin í janúar 2021 af lögreglunni á Norðurlandi eystra. Á þeim tíma var óttast um brúna sökum mikils krapa og íss sem safnast hafði fyrir í miklar stíflur fyrir ofan hana.