Þuríður Elísa: Hér leggja menn mikið upp úr að varðveita þetta gamla

Þuríður Elísa Harðardóttir tók við sem minjavörður Austurlands með starfsstöð á Djúpavogi í byrjun árs. Hún þekkti lítið til staðarins áður en hún kom en er ánægð með að hafa slagið til og flutt út á land með fjölskylduna. Gömlu húsin á Djúpavogi eru meðal þess sem hafa heillað hana.


„Það hefur verið lagður metnaður í að gera upp gömul hús eins og Teigarhorn, Löngubúð, Faktorshúsið og gömlu kirkjuna. Hér leggja menn mikið upp úr að varðveita þetta gamla.“

Hitt er að verndun gamalla húsa fer í gegnum Minjastofnun og er því hluti af starfi minjavarðarins. „Hús sem orðin eru 100 ára eru friðuð en síðan eru sumar byggingar friðlýstar sem eykur verndargildi þeirra. Þá ber að leita umsagnar Minjastofnunar fyrir breytingar á húsum sem byggð eru 1925 og fyrr.

Menn eru mikið í að gera við gömul hús fyrir austan og þegar slík mál koma inn til mín fer ég jafnvel á staðinn, ræði við húseigendur og skoða viðkomandi hús“

Heildarmyndin vernduð

Minjastofnun tengist einnig nýju verkefni ríkisins sem kallast verndarsvæði í byggð. Verkefnið er nýfarið af stað og í fyrsta áfanga gátu sveitarfélög sótt um styrki til að vinna tillögur að verndarsvæðum. Djúpivogur er eitt þeirra.

„Húsavernd snýst gjarnan um stök hús en með þessu er verið að taka saman heildarmynd bygginga og umhverfis á ákveðnu svæði. Ef við tökum Djúpavog sem dæmi getum við nefnt gamla bæinn sem er í kringum voginn. Honum myndi verða sett ákveðin varðveisluskilyrði.

Þessi heild getur síðan haft aðdráttarafl, svo sem fyrir ferðamenn. Þarna er komin verðmæt heild innan sveitarfélagsins og heimamenn geta bent á að þeir eru að vernda eitthvað sem tengist sögunni.“

Aðeins 30% fornminja skráðar

Fyrirferðamest fyrstu mánuði Þuríðar Elísu í starfi hafa verið skipulagsmál en Minjastofnun veitir umsögn áður en framkvæmdir fara af stað. Eins og víða annars staðar hefur verið mikil framkvæmdagleði á Austurlandi í tengslum við aukinn ferðamannastraum.

Samkvæmt skipulagslögum er skráning fornleifa hluti af gerð skipulags áður en ráðist er í uppbyggingu. Góð skrá getur flýtt fyrir við að afmarka svæði til framkvæmda. Pottur er hins vegar brotinn skráningum fornleifa á Íslandi.

„Fornleifaskráning er mikilvægasta verkefnið í minjavernd á Íslandi og er mikilvægt fyrir sveitarfélög og aðra framkvæmdaraðila að farið verði í átaksverkefni til að ljúka fornleifaskráningu á Íslandi. Hér á landi er áætlað að um 30% fornminja séu skráðar meðan annars staðar er hlutfallið 100%. Við erum því langt á eftir.“

Hún jánkar þegar hún er spurð hvort það sé ekki sérstakt fyrir þjóð sem státar sig jafn mikið af sögu sinni og Íslendinga gera gjarnan. „Jú, það mætti segja það. Það væri mjög gagnlegt að fá skráningarmálin í betri stöðu.“

Aðspurð um skráninguna á Austurlandi segir hún að staðan „mætti vera betri.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.