Þýðir ekki að senda menn af stað nema á þrúgum eða skíðum

Verið er að endurskipuleggja leit að rjúpnaskyttu á Völlum sem staðið hefur yfir síðan í gærkvöldi. Nokkuð hefur reynt á leitarmenn enda aðstæður erfiðar en von er á liðsauka úr Reykjavík í hádeginu.


Útkall barst um klukkan tuttugu mínútur fyrir átta í gærkvöldi og voru fyrstu leitarmenn komnir af stað skömmu síðar. Maðurinn hafði farið upp frá sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum ásamt tveimur félögum sínum en þegar hann skilaði sér ekki til baka þegar myrkur skall á var kallað eftir aðstoð.

Ótúlegt hvað farið var yfir stórt svæði

Athyglin í gærkvöldi og nótt beindist einkum að Ketilsstaðaöxl þar sem félagar mannsins töldu sig hafa séð hann síðast. Svæðið var hraðleitað strax í gærkvöldi og aftur í nótt með meiri mannafla og stærra svæði, allt út undir Útnyrðingsstaði.


Svæðið var stækkað og farið austur í Köldukvíslardal. „Við fluttum menn þangað á snjóbílum en þeir lentu í mjög erfiðu veðri og slæmri færð,“ segir Baldur Pálsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi.

„Veðrið var almennt vont í gærkvöldi og nótt en undir klettabeltunum Héraðsmegin var logn og þar var hægt að leita með allgóðum árangri.

Við vorum með um 200 manns í nótt og það er ótrúlegt hvað við komumst yfir stórt svæði því við tvíleituðum það.“

Ekki hægt að leita með þyrlunni

Aðstæður eru erfiðar til leitar, hlaðið hefur niður blautum snjó sem erfitt er athafna sig í. Þá er mikið um grafninga á svæðinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom austur í nótt með sporhund og víðavangsleitarhundar af Austurlandi voru fyrstir inn á svæðið í gærkvöldi.

Ekki hefur verið hægt að leita með þyrlunni vegna veðurs það sem af er morgni en vonir standa til að hún geti farið af stað upp úr hádegi. Þá var maðurinn ekki með farsíma þannig ekki er hægt að staðsetja hann með miðunarbúnaði þyrlunnar.

„Utan hennar er þetta bara leið gangandi manna þótt við höfum reynt að nota vélsleða. Færið er gríðarlega þungt og það þýðir ekkert að senda menn inn á það nema þeir séu á þrúgum eða skíðum,“ segir Baldur.

Leitin endurskipulögð

Rétt fyrir klukkan tólf á hádegi fór í loftið flugvél úr Reykjavík með 50 manna liðsauka. Þá hafa á ný verið kallaðar út björgunarsveitir af öllu Austurlandi. „Við vorum að endurheimta síðustu mennina af svæðinu og erum að endurskipuleggja stærra svæði fyrir leit. Aðalleiðin inn á svæðið er inn Egilsstaðaháls upp með Rauðshaug.“

Aðspurður segir Baldur að maðurinn sem leitað er að sé „afar vanur maður, geysilega harðsnúinn göngumaður með hund og kunnugur til þess að gera þar sem hann hafi oft komið á rjúpnaveiðar á svæðinu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.