Tignarlegir fuglar að setjast að á Austurlandi?

Undanfarin ár hefur sést til flækingsfugla sem kallast grátrönur hér á íslandi. Fuglarnir hafa sést útum allt land og nokkrum sinnum hérna fyrir austan. Náttúrustofa Austurlands hefur ekki látið þessa nýju gesti okkar fram hjá sér fara og fylgst grannt með þeim.

 
Á vef Náttúrustofunnar segir að grátrönur hafi lengi verið flækingsfuglar hér á Íslandi og fæstir ættu von á því að þeir tækju upp á því verpa hérlendis í bráð en þær hafa samt sem áður orpið hér á Austurlandi í nokkur ár. 

Grátrana er ein algengasta tegundin innan trönuættarinnar og ein af tveimur sem verpa í Evrópu. „Hún er með heildarstofn upp á um 400.000 fugla og þar af 3/4 hluti í Evrópu. Síðustu áratugina hefur fjöldinn verið á uppleið. Ástæða þess eru taldir breyttir búskaparhættir sem skila aukinni vetrarfæðu og auknu fæðuframboði á farleiðum fuglanna,“ segir Skarphéðinn G. Þórisson sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.  

Á vef Náttúrustofu Austurlands segir að fjórar grátrönur hafi sést út á Héraðssandi. Starfsmenn náttúrustofunnar fóru á vettvang og staðfestu að einungis væri um að ræða fullorðna fugla. Tvær grátrönur sáust fyrr í sumar nálægt Selfljótinu og aðrar tvær við Fögruhlíðará. Náttúrustofan vonar þessi fjölgun beri vott um að ungar sem skriðu úr eggi á Héraðssandi leiti á uppeldisstöðvarnar síðar.

Þessi flækingar hafa í auknum mæli verið að verpa hér á landi og líka hér fyrir austan. Vorið 2018 mættu þær austur á land en þrátt fyrir stærðina fór lítið fyrir þeim. „Lítið er vitað hvað þær aðhöfðust um sumarið en það að um haustið birtust þær með afraksturinn, tvo fleyga unga tilbúnar til farflugs,” segir á vef Náttúrstofunnar.

Grátrönur eru stórir tignarlegir fuglar og geta orðið yfir meter á hæð og vængspan þeirra verið upp  undir þrír metrar. Þeir eru mikil félagsdýr en þegar þeir finna sér maka eiga þeir til að halda í hann út allt lífið.

„Til gamans má geta að þá var þessi fugl útdauður í Bretlandi og er það komið til vegna þess að aðallinn þar í landi át hann upp til agna. En undanfarin ár hafa Bretar verið að flytja inn 50 til 60 egg á ári til að koma upp stofni þar á ný,“ segir Skarphéðinn.

Þessir tignarlegu fuglar eru kærkomin viðbót við það sem fyrir er og mögulega getur myndast hér lítill varpstofn sem áhugavert verður að fylgjast með í framtíðinni. Og þá er bara að bíða og vona að þær skili sér til baka að ári.

Grátrönur á Héraðssandi. Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar