„Til okkar leitar ungt fólk sem á að baki ljóta reynslu úr sínum fyrstu samböndum“

„Við sjáum að ofbeldi getur verið til staðar í samböndum unglinga án þess að forráðamenn og jafnvel ungmennin sjálf geri sér grein fyrir því,“ segir Þóra Björt Sveinsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, en samtökin fyrirlestra um verkefnið Sjúk ást fyrir forráðamenn ungmenna á Reyðarfirði í dag og á Egilsstöðum í kvöld.


Sjúk ást er verkefni á vegum Stígamóta sem miðar að því að fræða ungmenni um heilbrigð og óheilbrigð sambönd og ofbeldi. Í fræðslunni fá forráðamenn tæki og tól til að ræða málefnið við börnin sín.

„Við fórum af stað með fræðsluverkefnið Sjúk ást núna í febrúar til þess að vekja athygli á stöðu einstaklinga í unglingasamböndum, en til okkar leitar gjarnan ungt fólk sem á ljóta reynslu að baki úr sínum fyrstu samböndum. Við sjáum að ofbeldi getur verið til staðar í samböndum unglinga án þess að forráðamenn og jafnvel ungmennin sjálf geri sér grein fyrir því,“ segir Þóra Björt.

Auk þess að halda þessa tvo fyrirlestra fyrir forráðamenn ungmenna, fá kennarar grunnskóla og félagsmiðstöðva fræðslu frá Stígamótum um málefnið.

„Við viljum gefa því fólki sem starfar með ungmennum frá degi til dags þau tæki og tól sem þarf til að vinna að fræðslu og miðla áfram. Á síðunni Sjúk ást er til dæmis að finna svokallað sambandsróf þar sem búið er að setja upp einkenni heilbrigðra sambanda, óheilbrigðra og svo ofbeldis, þannig að einstaklingar geta staðsett sig og sitt samband. Einnig er þar að finna myndbönd sem unnin eru út frá þeim dæmum sem hafa verið að koma inn á okkar borð. Við stefnum að því að bæta við verkefnum og sjálfsprófum sem að kennarar geta nýtt í vinnu með ungmennum.

Viðmið ungmenna um kynlíf önnur en áður
Þóra Björt hvetur forráðamenn ungmenna og alla þá sem hafa áhuga á málefninu til þess að mæta á fyrirlestrana sem verða í Grunnskóla Reyðarfjarðar klukkan 17:00 og Egilsstaðaskóla klukkan 20:00.

„Á fyrirlestrinum verður einnig fjallað um þann raunheim sem ungmenni búa við varðandi klám og klámmenningu og þá hvað þau eru að miða við varðandi sína kynlífsreynslu, en við sjáum mikil áhrif úr klámheiminum á kynlíf ungmenna, en það er eitthvað sem við gerum okkur ekki almennt grein fyrir, viðmiðin ungmenna varðandi kynlíf eru allt önnur en þegar forráðamenn þeirra vorum að alast upp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.