Tilkynnt um nýja dagskrá Unglingalandsmóts: Keppt í snjókasti og skíðagöngu

egs_23052011_2.jpgÓveður og ófærð er enn víða á Austurlandi og snjó kyngir niður. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands sendi í morgun frá sér tilkynningu um töluvert mikið breytta dagskrá unglingalandsmótsins um verslunarmannahelgina þar sem tekið er mið af núverandi veðuraðstæðum.

 

Vopnafjörður er einangraður og beðið hefur verið með mokstur þangað í morgun vegna veðurs. Ekkert ferðaveður er í Jökuldal og Möðrudalsöræfum.

Ófært er á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra og Mjóafjarðarheiði. Byrjað er að ryðja til Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar en færð þangað er enn slæm.

Ófært er bæði um Breiðdalsheiði og Öxi og óveður þar. Snjór er á öðrum fjallvegum og skafrenningur.

Óveður er í Suðursveit og austur á Djúpavog. Leiðin um Álftafjörð og Hamarsfjörð er merkt ófær í kortum Vegagerðarinnar. Lögreglan ræður fólki frá því að vera á ferðinni þar eins og er.

Starfsmenn í sláttugengjum bæjarvinnunnar hafa flest fengið skilaboð um að þurfa ekki að mæta í vinnu. Einhverjir munu þó vera að hjálpa til við að ryðja snjóinn. Á Egilsstöðum voru bæjarstarfsmenn byrjaðir að ryðja götur bæjarsins upp úr klukkan sex í morgun. Það gekk þó brösuglega þar sem snjó kyngdi niður.

Á vef UÍA var í morgun birt ný dagskrá Unglingalandsmótsins, sem til stendur að halda á Fljótsdalshéraði um verslunarmannahelgina, sem tekur mið af breyttu veðurfari. Ekki virðast mótshaldarar bjartsýnir á að nokkuð rofi til en þar er gert ráð fyrir að björgunarsveitarmenn á snjóbílum fylgi keppendum til og frá bæjarmörkunum. Reiknað er með keppni í ístölti og skíðagöngu, sem til þessa hafa ekki verið keppnisgreinar á mótinu!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar