Tilraunaverkefni með aukna ábyrgð hjúkrunarfræðinga gengur vel

Tilraunaverkefni sem hrint var af stað á heilsugæslunni á Egilsstöðum eftir áramótin með aukna ábyrgð hjúkrunarfræðinga hefur gefist vel. Þeir sem hafa samband við heilsugæsluna fá fyrst svar frá hjúkrunarfræðingi sem metur hvort þörf sé á aðstoð læknis eða getur leyst málin.


„Það eru allir ánægðir. Hjúkrunarfræðingarnir fá fjölbreyttari verkefni, álagið á læknana minnkar og þeir sem hringja fá lausn sinna mála símleiðis og þurfa ekki að koma,“ sagði Guðbjörg Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur á fræðadegi HSA fyrir skemmstu þar sem hún kynnti verkefnið.

Svipaðar tilraunir hafa verið í gangi bæði í Garðabæ og Húsavík. Verkefninu eystra var hrundið af stað til að bregðast við læknaskorti og miklu álagi á þá sem eftir voru.

„Við ræddum um hvernig við gætum minnkað álagið á læknum og móttökuriturunum sem fengu á sig reiða skjólstæðinga sem ekki fengu tíma. Hjúkrunarfræðingar eru vel menntaðir og geta leyst úr vissum verkefnum, eins og útgáfu vottorða og fleiru.

Læknarnir á Egilsstöðum hafa lýst yfir ánægju með þetta. Undirbúningstíminn var lítill og þetta fór frekar hratt og óvænt af stað en læknarnir finna mikinn mun.“

Síðasta haust var á landsvísu tekið upp vaktnúmerið 1700. Þar svara hjúkrunarfræðingar og meta hvort kalla eigi til lækni. Guðbjörg segir þá þjónustu hafa fækkað símtölum í vaktsíma lækna um helming.

Verkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Aukin aðkoma hjúkrunarfræðinga hefur meðal annars gefist vel í Finnlandi. Möguleiki er að þróa verkefnið áfram, til dæmis með svokallaðri opinni móttöku þar sem hjúkrunarfræðingur tekur sjálfur á móti skjólstæðingi í samvinnu við lækni.

„Þetta var skrýtið fyrst en við sjáum betra flæði skjólstæðinga, meiri samskipti við þá og meiri ánægju þjónustuþega.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.