Tímaspursmál hvenær FHL tryggir úrvalsdeildarsætið
Tímaspursmál er orðið hvenær FHL tryggir sæti sitt í Bestu deild kvenna eftir 1-4 sigur á Aftureldingu sem fyrir leiki vikunnar var í öðru sæti. Í annarri deild karla munar aðeins orðið einu stigi á austfirsku liðunum.FHL heimsótti Aftureldingu í Mosfellsbæ á miðvikudagskvöld. Afturelding var 1-0 yfir í hálfleik en í seinni hálfleik brustu varnir þess. Selena Salas skoraði tvö mörk, Samantha Smith eitt auk þess sem eitt mark var sjálfsmark.
FHL er með 34 stig þegar fimm umferðar eru eftir í deildinni. Næstu lið eru jöfn með 22 stig en það eru ÍBV og Grótta. FHL mætir ÍBV eftir verslunarmannahelgi. Með sigri þar getur FHL komist enn nær úrvalsdeildarsætinu þannig að aðeins virðist tímaspursmál hvenær það verður tryggt.
Í annarri deild karla hefur KFA fatast flugið með þremur tapleikjum í röð. Liðið tapaði 3-1 fyrir Reyni í Sandgerði í gær. Jafnt var í hálfleik 1-1. Reynir komst yfir strax á annarri mínútu en Julio Cesar Fernandes jafnaði í uppbótartíma.
Geir Sigurbjörn Ómarsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 61. mínútu. Reynismenn skoruðu síðan tvö mörk seint í leiknum.
Höttur/Huginn vann Ægi 2-0 á Vilhjálmsvelli á miðvikudag. Martim Cardoso skoraði bæði mörkin í seinni hálfleik. Þetta var þriðji sigur Hattar í röð og hefur staða liðsins snúist á stuttum tíma frá því að vera að sogast niður í fallbaráttu í það vera í toppbaráttu.
Þrátt fyrir erfiðar vikur er KFA enn í ágætri stöðu til að komast upp um deild. Selfoss hefur tekið afgerandi forustu í deildinni en Víkingur Ólafsvík og Völsungur deila öðru sætinu með 26 stig, KFA er með 25, Höttur/Huginn er með 24 og síðan koma Þróttur Vogum og Haukar með 23 stig. Þetta þýðir að munurinn frá öðru og niður í sjöunda sæti er aðeins þrjú stig.
Mynd: Unnar Erlingsson