Ætlar að kæra skipan stjórnlagaráðs

siggi_vadbrekku.jpgSigurður Aðalsteinsson, sem bauð sig fram til stjórnlagaþings í haust, hyggst kæra skipan stjórnlagaráðs. Hæstiréttur ógilti í janúar kosningarnar til stjórnlagaþingsins en Alþingi ákvað að skipa þá sem kosnir höfðu verið á þingið í stjórnlagaráð sem tekið er til starfa.

 

Frá þessu er greint í Austurglugganum. Þar segir að Sigurður hafi sent Innanríkisráðuneytinu bréf og óskað eftir að kosið yrði að nýju en það hafi verði hunsað.

Í bréfinu til ráðuneytisins lýsir Sigurður þeirri skoðun sinni að ef löglega væri staðið að kosningunni ætti hann „ágæta möguleika á að ná kjöri.“ Hann segist að með því að hafa réttindin af honum sé verið að valda honum „bæði fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni.“ Hann muni höfða skaðabótamál gegn ríkissjóði verði ekki orðið við kröfum hans.

 „Ég var mjög hissa á þessari ákvörðun, framkvæmdin var dæmd ógild og það getur enginn gefið sér það að þrátt fyrir að formlegir annmarkar hafi verið á framkvæmdinni þá hefðu þau sem skipuð voru í stjórnlagaráð fengið kjör.

Þar er fólk að gefa sér ákveðnar forsendur og slíkan afslátt á formfestu, kröfum og lögmæti kosninga á Íslandi á ekki að gera. Ég mun leggja fram kæru innan fárra daga“ segir Sigurður í samtali við Austurgluggann.

Sigurður telur töluverðar líkur á að fólk myndi kjósa á annan hátt ef kosið yrði á ný. „Í fyrsta lagi getum við ekki gefið okkur að úrslitin hafi verið rétt.

Í öðru lagi þá tel ég að ég eigi góða möguleika enda hefur fólk séð hvað ber að varast. Landsbyggðin mun taka aukinn þátt í kosningunum, sjómenn munu passa að greiða atkvæði í tíma og fólk mun almennt kynna sér málin betur til þess að varast það að einungis þjóðþekktar persónur sitji í stjórnlagaráði.

Einnig tel ég að fólk vilji ekkert lengur með óskabörn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar