Tók tvo daga að koma gröfu til Mjóafjarðar

Tæpa tvo vinnudaga þurfti til að koma beltagröfu til Mjóafjarðar til að hreinsa til eftir krapaflóð í Borgeyrará um síðustu helgi. Lagfæringar á árfarveginum hófust loks í gær.

„Hún keyrði frá afleggjaranum til Mjóafjarðar. Hún gat keyrt að mestu ofan á snjónum yfir heiðina en varð svo að moka sig niður Mjóafjarðarmegin,“ segir Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar.

Síðasta laugardag kom hlaup í ána sem bar með sér eðju og grjót niður í þorpið í firðinum. Munu heimamenn ekki hafa séð svo stórt flóð í ánni fyrr. Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar segir að mannvirkjum og íbúum hafi staðið ógn af.

Hún fór upp úr farvegi sínum og áhyggjur voru af því að hvað gæti gerst ef ekki tækist að koma henni aftur í sinn rétta farveg í gegnum þorpið. Það tókst með traktorsgröfu sem til staðar er í firðinum.

Aðstæður voru hins vegar með þeim hætti að ekki var hægt að koma stórtækjum vinnutækjum á staðinn til að moka grjóti upp úr farveginum. Ekki vildi betur til en svo en að eftir átökin við að moka sig niður af heiðinni bilaði grafan þegar niður var komið. Þess vegna var ekki hægt að byrja vinnuna fyrr en í gær.

Fara þarf með stærri gröfu á svæðið í sumar til að laga bakka árinnar og farveg enn frekar. Þá hefur leðju verið handmokað upp í traktorsskóflu í tiltektinni.

Í bókun bæjarráðs er skorað á samgönguyfirvöld og Alþingi að huga að endurbótum samgangna við Mjóafjörð til að rjúfa einangrun íbúa þar og tryggja öryggi. „Svona atburðir ýta við mönnum. Menn vilja ekki hugsa það til enda ef þetta hefði verið stærri viðburður,“ segir Marinó.

Á þriðjudag gekk hvassviðri yfir Austurland. Ford Ecoline, sem farið hafi verið með upp að Innri Grjótá í mynni Slenjudals í tengslum við ferð gröfunnar fauk um morguninn og valt heilan hring yfir veginn. Þá fauk hjólhýsi á Eyvindará og skemmdist þótt það hefði verið að miklu leyti á kafi í snjó.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.