Þolir ekki að fara á söfn þar sem stendur; má ekki snerta

„Manni finnst maður vera öðruvísi á einhvern hátt,“ segir Seyðfirðingurinn Aron Fannar Skarphéðisson, sem í samvinnu við forvarnarfulltrúa staðarins býður bæjarbúum nú innsýn í heim einhverfs einstaklings.


Elí Freysson, frændi Arons, gaf nýverið út lítið hefti sem ber nafnið „Með augum einhverfunnar“, en í því reynir hann að útskýra hvernig það er að vera einhverfur. Heftið er afar áhugaverð lesning og gefur lesendum, á einfaldan hátt, innsýn og aukinn skilning á líf einstaklinga með einhverfu.

„Mér bara datt í hug að panta þennan bækling fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, þannig að ég fór á bæjarskrifstofuna og í samvinnu við forvarnarfulltrúa þar pantaði ég 30 eintök sem fara í fyrirtæki og stofnanir í bænum.“

Einhverfir hugsa tíu sinnum fleiri hugsanir en aðrir
Aron Fannar er 22 ára gamall en var sjálfur greindur með einhverfu þegar hann var tólf ára. Hvernig lýsir hann lífi sínu með einhverfu?

„Það er svo margt sem fer í gegnum hugann hjá fólki með einhverfu, að þegar venjuleg manneskja er búin að hugsa eina hugsun erum við búin að hugsa tíu. Mín reynsla af einhverfu er einnig sú að maður á erfitt með að mynda tengsl við aðra og ef maður myndar tengsl, þá á maður til að ofnota þau – vera yfirþyrmandi þegar maður loksins tengist manneskju.

Í mínu tilfelli nota ég einnig hendurnar frekartil þess að skynja lögun hluta þegar flestir láta sér nægja að horfa á þá, þess vegna þoli ég ekki að fara á söfn þar sem stendur; má ekki snerta.“


Alltaf að vinna í sínum málum
Aron Fannar segist alltaf vera að vinna í sínum málum. „Ég flosnaði upp úr menntaskóla, en ég var alltaf annars hugar. Mér líður illa í fjölmenni og miklu áreiti, verð alveg orkulaus við að reyna að útiloka alla truflun. Ég hef einnig flakkað töluvert milli vinnustaða, en upp hafa komið ákveðnir samstarfsörðugleikar.“

Blár föstudagur í Kjörbúðinni
Í dag vinnur Aron Fannar vinnur í Kjörbúðinni á Seyðisfirði, en Austurfrétt sagði frá því á dögunum að starfsfólk mætir alltaf í betri fötunum í vinnuna á föstudögum. Fyrir tilstilli Arons Fannars klæddist starfsfólkið einhverju bláu föstudaginn 6. apríl, sem er tileinkaður er fólki með einhverfu.

Vill fræða almenning
Aron Fannar segir sinn megin tilgang með verkefinu vera að fræða almenning. „Ég er orðin svo þreyttur á að þurfa alltaf að útskýra hvað einhverfa er, en það er svo óútskýranlegt í stuttu máli og tekur langan tíma. Elí kemst hins vegar svo vel að orði í bæklingnum, enda rithöfundur, þannig að fólk ætti að geta fengið ágætis innsýn inn í líf fólks með einhverfu. Það er fullt af fólki sem eru aðstandendur einhverfra eða verða það í framtíðinni og þá er eins gott að vera vel undirbúinn.“

Aðstandendanámskeið á Egilsstöðum í maí
Rétt er að vekja athygli á því að samtökin Blár apríl verða með aðstandendanámskeiðið á Egilsstöðum þann 12. maí næstkomandi, en nánar má lesa um það hér.

Fínir föstudagar í kjörbúðinni




 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.