Torfið flettist af Lindarbakka í Dyrfjallaveðri
Talsverðar skemmdir yrðu á húsinu Lindarbakka á Borgarfirði í miklu hvassviðri í gærkvöldi þegar torf á þaki hússins flettist af. Þá fauk malbik af veginum við brúna yfir Fjarðará.„Torfið virðist hafa flest af í heilu lagi, farið yfir strompinn og brotið hann en járnið stendur eftir,“ segir Björn Aðalsteinsson, íbúi á Borgarfirði.
Lindarbakkahúsið er þekkt langt út fyrir Austfirði en margir gestir sem heimsótt hafa Borgarfjörð mynda rauða húsið með torfþakinu.
Fyrst í morgun var óttast að skemmdir hefðu einnig orðið inni í húsinu en svo mun ekki vera. Starfsmenn Borgarfjarðarhrepps hafa í dag komið torfinu frá hús og gengið frá þakinu þannig að ekki verði frekari skemmdir. Ljóst er að setja þarf nýtt þak á húsið.
Fleiri skemmdir urðu á Borgarfirði í veðurhamnum í nótt. Vinnubúðir Héraðsverks sem standa við áhaldahúsið í ytri enda þéttbýlisins hreyfðust til og voru tjóðraðar niður. Þá fauk hlið við kirkjugarðinn og grindverk brotnaði við kirkjuna.
Austan við brúna yfir Fjarðará flettist malbik af á um 20 metra kafla. „Ég man ekki eftir að slíkt hafi skeð hér í Borgarfirði,“ segir Björn.
Björn telur að þakið hafi farið af Lindarbakka milli hálf eitt og eitt í nótt. Vindur í gærkvöldi stóð af vestri og þá myndast svokallað Dyrfjallaveður á Borgarfirði.
„Í vestan og norðvestanátt þá stendur vindurinn niður úr Dyrfjöllunum sem myndar svona agalegar hviður, svo dúrar í á milli,“ segir Björn. Enginn vindmælir er á Borgarfirði en hviður upp á 35-40 m/s mældust í kringum miðnætti í gærkvöldi á Vatnsskarði. Mestur vindhraði í gærkvöldi mældist á Gagnheiði, 50 m/s.
Björn bendir einnig á að tíðarfarið að undanförnu, hlýtt og þurrt, hafi haft sín áhrif. „Torfið var svo þurrt. Ég veit ekki hvort það hefði farið af ef það hefði verið frost.“
Myndir: Björn Aðalsteinsson