Þriðji forseti Röskvu í röð frá Austurlandi

Héraðsbúinn Rebekka Karlsdóttir er nýkjörinn forseti Röskvu stúdentahreyfingar en hún er þriðji forseti hreyfingarinnar í röð sem kemur frá Austurlandi.

Röskva vann sigur í kosningunum þriðja árið í röð nú í febrúarbyrjun. „Við fengum 17 af 27 fulltrúum í stúdentaráði ásamt því að hafa í fyrsta skipti í sögu Röskvu náð meirihluta á öllum sviðum skólans,” segir Rebekka sem er á fyrsta ári í líffræði við Háskóla Íslands.

Gömul tugga að stúdentapólitík sé tilgangslaus
Rebekka segist lengi hafa verið virk félagsstörfum og það hafi ekki komið nokkrum á óvart að hún héldi því áfram þegar hún hóf háskólanám. „Ég þekki það, komandi úr litlu samfélagi, að það skiptir máli að taka virkan þátt í að bæta nærsamfélag sitt og þess vegna ákvað ég að taka þátt í stúdentapólitíkinni. Það er gömul tugga að stúdentapólitík sé tilgangslaus en það er langt frá því að vera satt, hagsmunabarátta stúdenta er svo ótrúlega mikilvæg og það skiptir máli að vera með gott fólk við stjórn, og þess vegna ákvað ég að gangast til liðs við Röskvu,” segir Rebekka en kjör hennar átti sér stuttan aðdraganda.

„Ég mætti á nokkra viðburði seinasta haust þegar ég byrjaði í skólanum og tók svo skyndiákvörðun á auka aðalfundi félagsins að bjóða mig fram sem meðstjórnanda í stjórn Röskvu, en þá vantaði að fylla þá stöðu. Svo fílaði ég þetta bara svona vel að ég fór í þetta af fullum krafti og er orðin forseti núna nokkrum mánuðum síðar.”

Rebekka segir samstarfsfólk sitt ótrúlega stolt af því trausti sem stúdentar sýna þeim. „Rauði þráðurinn í starfi Röskvu er að tryggja jafnrétti allra til náms, sem hefur meðal annars sýnt sig í stórauknu framlagi til geðheilbrigðismála innan Háskóla Íslands, ásamt því að mikil áhersla hefur verið lögð á að auka framfærslu námslána hjá LÍN, sem hefur nú hækkað um 4% á einu ári og er það hæsta í fjögur ár.

Flest okkar sem koma utan að landi þurfum að flytja að heiman og taka námslán til að eiga kost á því að fara í háskóla og því er ótrúlega mikilvægt að LÍN virki sem jöfnunarsjóður og þau sem þurfi mest fái mest. Svo til að nefna eitt af þeim málum sem Röskva hefur unnið að, sem varða hagsmuni stúdenta utan af landi sérstaklega, er að vorið 2018 var samþykkt að leyfa framleigu stúdentaíbúða yfir sumartímann eftir tillögu Röskvuliða, en það hefur áður verið óheimilt. Þetta er mjög mikilvægt fyrir samfélög út á landi til að fá unga fólkið sitt heim á sumrin og sýnir hvað hægt er að áorka með öflugri hagsmunabarátta stúdenta.”

„Við höfum enga skýringu á þessu”
Athygli vekur að Rebekka er þriðji Austfirðingurinn í röðinni til þess að gegna hlutverki forseta Röskvu, en fráfarandi forseti er Sigurður Vopni frá Vopnafirði og á undan honum var það Guðjón Björn Guðbjartsson frá Neskaupstað.

„Við höfum öll mjög gaman að þessu og þetta er sérstaklega athyglisvert þar sem að við þekktumst lítið sem ekki neitt fyrir þetta og ekkert okkar var í sama menntaskólanum. Svo í ofanálag þá komum við öll frá sitthvoru sveitarfélaginu svo að við höfum í raun bara alls enga skýringu á þessu,” segir Rebekka.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.