Ríflega þriggja tíma seinkun á flugi vegna bilunar

Farþegar sem áttu bókað far austur í Egilsstaði með Flugfélagi Íslands í morgun biðu á Reykjavíkurflugvelli í rúma þrjá klukkutíma eftir að vélin færi í loftið vegna bilunar.


Vélin átti að fara í loftið 8:55 úr borginin en fór ekki fyrr en kortér yfir tólf. Brottför frá Egilsstöðum verður því ekki fyrr en um klukkan eitt. Austurfrétt fékk staðfest hjá Flugfélaginu að um væri að ræða bilun í vél.

Vélin sem fer austur er TF-FXA, önnur Bombardier Q400 vélin sem Flugfélagið tekur í þjónustu sína. Sú fyrsta TF-FXI kom til félagsins í byrjun mars og settu bilanir í henni stórt strik í reikninginn fyrsta mánuðinn. Ekki hafa borist fregnir af vandræðum með hana síðan á annan í páskum.

Vélin sem bilaði í morgun er nýkomin til Flugfélagsins og sú þriðja og síðasta er væntanleg í maí. Þær leysa Fokker F50 vélarnar af hólmi.

Fleira hefur raskað áætlunum Flugfélagsins síðustu daga heldur en bilanir í Bombardier. Fyrir sléttri viku varð klukkustundar seinkun þegar byrja þurfti að flytja vél frá Keflavík til Reykjavíkur þar sem hún hafði lent kvöldið áður vegna verkfalls flugumferðarstjóra. Kvöldflugum félagsins hefur verið flýtt vegna þess í vikunni.

Fyrir tíu dögum varð þriggja tíma seinkun á flugi frá Egilsstöðum þegar Fokker F50 vél bilaði þar. Bombardier var þá sendur til að sækja farþegana.

Leiðrétt: Augnabliki eftir að fyrsta útgáfa fréttarinnar fór í loftið var áætlaðri brottför seinkað á ný frá 11:15 til 11:40. Áfram bættust við seinkanir til 12:13.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar