Tvö gestahús eyðilögðust í einni og sömu hviðunni í Hamarsfirði
Tvö af nokkrum gestahúsum sem leigð eru út á Bragðavöllum í Hamarsfirði eyðilögðust að mestu í ofsaveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku. Mildi þykir að þau hús voru bæði mannlaus en gestir voru í tveimur nálægum húsum þegar ósköpin gengu yfir.
Það eru bræðurnir Eiður og Ingi Ragnarssynir sem eiga og reka ferðaþjónustuna að Bragðavöllum sem er í um tíu mínútna fjarlægð frá þorpinu í Djúpavogi en Eiður er ennfremur staðgengill sveitarstjóra Múlaþings fyrir hönd heimastjórnar Djúpavogs. Sjálfur segist hann aðeins muna eftir svipuðum stormi einu sinni áður á síðustu árum.
„Það var bara alveg brjálað veður hérna, mjög hviðótt og ein þeirra náði sér svo vel á strik að að bæði húsin fóru í nákvæmlega sömu hviðunni. Sem betur fer voru ekki gestir í þessum húsum en það voru gestir hjá okkur í öðrum húsum hér. Þeir voru reyndar merkilega rólegir yfir látunum en við til öryggis bókuðum þau í kjölfarið í herbergi á hótelinu á Djúpavogi. En þau tóku þessu öllu með ótrúlegu jafnaðargeði verð ég að segja en við vorum auðvitað önnur kafnir við að fyrirbyggja frekara tjón svo við töluðum nú ekki lengi við þau áður en þau fóru. Hér var auðvitað brak út um allt og það sem mér finnst sérstakt við þetta er að það er jafnan ekki svo hvasst hér hjá okkur í þessum tilteknu vindáttum sem voru ríkjandi á þessum tíma.“
Búið að bóka gistingu í öllum húsum í sumar
Það styttist í sumarið sem aðaltími ferðaþjónustuaðila í landinu og þrátt fyrir áfall þetta er Eiður þokkalega bjartsýnn að að geta keypt ný hús í stað þeirra sem eyðilögðust og koma þeim fyrir áður en sá tími gengur í garð. Löngu er uppbókað í öllum gestahúsum að Bragðavöllum næsta sumarið.
„Við höfum ekkert val um annað en koma upp nýjum húsum fyrir sumartímann. Við erum enda farnir að skoða alla möguleika í þeim efnum og ekkert endilega markmið að hafa húsin alveg eins og þau sem skemmdust. Svo verður að koma í ljós hvað er í boði.“
Verstu hviður í febrúar
Í sérstakri úttekt sem Veðurstofa Íslands gerði í kjölfar veðurofsans í síðustu viku kemur fram að vindhraði á þremur stöðum á Austurlandi hefur aldrei mælst jafn hár í febrúarmánuði og gerðist fyrir helgina. Þar um að ræða Seley í Reyðarfirði, Fáskrúðsfjörð og Vattarnesið.
Grindin ein eftir af gestahúsunum að Bragðavöllum eftir miklar hviður í Hamarsfirðinum í síðustu viku. Mynd Aðsend