Tvö útköll vegna göngufólks á Seyðisfirði

Björgunarsveitir hafa síðustu daga tvisvar verið kallaðar út á Seyðisfirði vegna göngufólks í vandræðum. Á Borgarfirði var björgunarsveitin fengin til að bjarga því að bíll ylti á leiðinni úr Húsavík.

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði var upp úr hádegi í gær kölluð út vegna göngumanns sem hafði slasast á fæti við Búðarárfoss. Sjúkrabíll kom einnig frá Egilsstöðum. Aðgerðin gekk hratt og vel.

Fjöldi fólks var á Seyðisfirði í gær. Þrjú skemmtiferðaskip voru í höfn því eitt þeirra hætti við að fara til Djúpavogs vegna veðurs.

Á sunnudag voru björgunarsveitir kallaðar út vegna göngumanns sem taldi sig í sjálfheldu við Vestdalsvatns. Skömmu síðar var útkallið afturkallað því annar gönguhópur var kominn að göngumanninum og gat aðstoðað hann á rétta braut.

Á föstudag var Björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði kölluð út vegna bíls í vanda á leið úr Húsavík. Bíllinn hafði lent út af þröngum veginum og þaðan ofan í for. Hann vó því nánast salt á vegöxlinni.

Þar sem aðrir þjónustuaðilar voru ekki tiltækir fór björgunarsveitin á staðinn til að tryggja að bíllinn færi ekki á hliðina. Björgunarsveitin fékk aðstoð bíleigenda úr nágrenninu til að halda við bílinn meðan nýr björgunarsveitarbíll, sem Sveinungi fékk fullbúinn í fyrra, spilaði bílinn upp á veginn.

Bergvin Snær Andrésson, formaður Sveinunga, segir það hafa gengið vel með að fara varlega því bíllinn hafi verið mjög tæpur á vegöxlinni. Afar þakklátir ferðalangar hafi síðan getað haldið ferð sinni áfram.

Myndir: Björgunarsveitin Sveinungi/Hlynur Sveinsson


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar