Um 90 þúsund krónur kostar að senda tollvörð austur

Um eða 90 þúsund krónur kostar í hvert skipti sem senda þarf tollvörð af höfuðborgarsvæðinu austur til að létta undir við tollafgreiðslu Norrænu við komu hennar til Seyðisfjarðar. Það var gert í yfir 30 skipti á síðasta ári.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra voru sameinuð um síðustu áramót undirmerkjum Skattsins. Líneik spurði meðal annars um hversu mörgum tollvörðum hefði verið sagt upp í kjölfar sameiningarinnar og hve margir þeirra hefðu búið á Austurlandi.

Í svarinu kemur fram að engum hafði verið sagt upp vegna sameiningar, hins vegar hafði setning sex tollvarða annars staðar á landinu ekki verið framlengd nú í sumar vegna Covid-19 faraldursins. Engum tollverði á Austurlandi hafi verið sagt upp og aðeins hafi verði ráðinn einn sumarstarfsmaður til tollgæslu en sá sé staðsettur eystra. Athygli er vakin á því í svarinu að árin 2019 og 20 hafi Skatturinn ráði í 17 ný stöðugildi á landsbyggðinni, þar á meðal á Egilsstöðum.

Alla jafna þarf 4-6 tollverði til að afgreiða Norrænu, en fjórir tollverðir eru alla jafna starfandi á Austurlandi. Í svarinu segir að Skatturinn telji ekki þörf á fleiri stöðugildum tollvarða á Austurlandi.

Þeim til aðstoðar hafa verið fólk sem ekki hefur tollvarðaréttindi, en er kallað aðstoðarmenn tollvarða. Sex manns hafa verið í því liði eystra en þeim var öllum sagt upp störfum í lok maí. Í staðinn stendur til að senda mannskap austur þegar á þarf að halda. Ákvörðuninni hefur verið harðlega mótmælt af bæjaryfirvöldum á Seyðisfirði og víðar á Austurlandi. Fyrirspurn Líneikar var lögð fram eftir að fréttir bárust af þessum uppsögnum. Í svari ráðherrans er sundurliðaður kostnaður við að senda tollverði austur, en aldrei er vikið beinum orðum að stöðu aðstoðarmanna þeirra.

Hvað kostar ferðin?

Flug kostar um 60.000 báðar leiðir en 17% afsláttur fæst ef greitt er með flugkorti, bílaleigubílar í hverri verð 15-20 þúsund, gisting á Egilsstöðum 15-25 þúsund og annað uppihald 3.500-4.000. Ekki eru greiddir dagpeningar.

Miðað við þetta kostar um 90 þúsund krónur að senda hvern tollvörð austur. Telst það þó vel sloppið, í svari við annarri fyrirspurn á Alþingi um tollverði á Seyðisfirði frá árinu 2016 kemur fram að meðalkostnaður á hverja ferð árunum 2011-2014 hafi þá verið meira en tvöfalt hærri.

Breytt verklag léttir á

Í fyrra voru 32 ferðir farnar austur til að aðstoða við tollafgreiðslu og hafa aldrei verið fleiri síðustu tíu ár. Árið áður voru þær 8 og 16 þar áður. Sá fjöldi hefur verið nokkur stöðugur frá 2014 en var helmingi meiri 2012 og 13.

Fjölgunin í fyrra er í svari fjármálaráðherra skýrð með með því að innleiða hafi þurft verklag við afgreiðslu ökutækja í tímabundnum innflutningi. Átak og breytt verklag við eftirlit með þeim þýði hins vegar að færri starfsmenn þurfti að að afgreiða þau. Þá er bent á að rafræn afgreiðsla skipa, sem tekin var upp í byrjun árs 2019, hafi létt á vinnu við Norrænu. Í svarinu er þó ekki að finna tölur um þegar lögreglumenn af Austurlandi eða tollverðir frá Akureyri aðstoði við tolleftirlitið en tekið fram að það sé ódýrara enda gisti þeir sjaldnast. Reynt sé að nýta ferðirnar þurfi tollverðirnir að sinna öðru eystra en Norrænu.

Spurningu um áætlanir um fjölda ferða tollvarða framvegis er ekki svarað heldur vísað til óvissu sem ríki vegna Covid-19 faraldursins og bent á að mannaflaþörfin byggist alltaf á hve margt fólk eða ökutæki komi með ferjunni.

Í svarinu kemur fram að losun koltvíoxíðs á hvern tollvörð í fluginu austur sé tæp tvö kílógrömm.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.