Undirbúa stofnun vatnsverksmiðju á Borgarfirði

Borgarfjarðarhreppur hefur auglýst kynningu á drögum að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið þar sem til stendur að stofna vatnsverksmiðju.


Samkvæmt skipulagslýsingunni verður 11 hekturum í landi Geitlands, sem er næst síðasti bær við þorpið þegar komið er frá Egilsstöðum, breytt úr landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði.

Vatnið í framleiðslu Vatnworks Iceland ehf. verður tekið í landi Bakka sem tilheyrir sveitarfélaginu. Áætlað er að borholan dæli 2 lítrum af vatni á sekúndu. Átöppunarverksmiðjan sjálf yrði í landi Geitlands fyrir ofan veg, beint ofan íbúðarhússins.

Í skipulagslýsingu kemur fram að áætlað sé að flytja þurfi einn gám af vatni á viku frá svæðinu til næstu hafnar sem að líkindum verði á Reyðarfirði.

Í lýsingunni er því haldið fram að þeir umhverfisþættir verði fyrir áhrifum af byggingu verksmiðjunnar séu hagrænir – og félagslegir þættir þar sem fjölbreytni í atvinnulífi staðarins aukist. Umhverfisáhrif eru sögð óveruleg, helst verði hávaði frá borholunni sem takmarkað verður með yfirbyggingu og frárennsli. Eins þurfi að skoða áhrif á vatnsból Borgarfjarðarhrepps.

Umsagnarfrestur um tillöguna er til 5. desember. Gert er ráð fyrir að tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði síðan lögð fyrir í sveitarstjórn og fari í lögformlegt auglýsingaferli í byrjun næsta árs.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar