Undirbúningur að framboði Miðflokksins í Fjarðabyggð langt kominn

Útlit er fyrir að kjósendur í Fjarðabyggð geti valið milli fjögurra framboða í sveitastjórnarkosningunum í vor þar sem Miðflokkurinn bætist í hópinn. Deild flokksins í sveitarfélaginu verður stofnuð á morgun. Flokksfélagar segjast finna áhuga á nýja framboðinu.

„Það er ekki hægt að slá neinu föstu fyrr en það er orðið en þetta er langt komið,“ segir Guðmundur Þorgrímsson, einn þeirra sem starfað hafa að undirbúningi framboðsins.

„Það má segja að við séum með virkan hóp af fólki sem vill taka þátt í nýjum tímum og við finnum fyrir meðbyr. Það hafa margir haft samband við okkur, miklu fleiri en ég reiknaði með í upphafi. Það er gaman að menn hafi áhuga á sveitastjórnarmálum.“

Guðmundur segir að „veruleg beinagrind“ sé orðin til að lista en er ekki tilbúinn að ræða hver muni leiða listann. „Það má gera það eftir morgundaginn.“

Fundurinn verður haldinn í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði klukkan þrjú á morgun. Til hans mæta báðir þingmenn flokksins í kjördæminu, formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir. Í auglýsingu fundarins er allt áhugafólk um „betra Ísland og miklu betri Fjarðabyggð“ hvatt til að mæta.

„Það liggur ljóst fyrir að þetta framboð er ekki, frekar en önnur að fara gera neinar hallarbyltingar heldur áfram áfram að gera góða hluti betri,“ segir Guðmundur aðspurður um yfirskrift fundarins.

Guðmundur er gamalreyndur í sveitastjórnarmálum þar sem hann sat í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í átta ár fyrir Framsóknarflokkinn og í sveitastjórn Austurbyggðar í áratug fyrir sameiningu.

Frá 2006 hafa þrjú framboð setið í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, Fjarðalistinn, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Síðarnefndu flokkarnir tveir hafa myndað meirihluta frá 2010. Víst þykir að nýtt framboð geti haft nokkur áhrif á fylgi þeirra sem fyrir eru.

„Við erum ekki að spá í hinum,“ svarar Guðmundur spurður fyrir hvort hann finni fyrir titringi meðal þeirra. „Ég sé að frá gamalli tíð að það séu tímamót að framboðin séu fjögur. Það mun breyta miklu fyrir hin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.