Unglingalandsmót UMFÍ haldið á Egilsstöðum að ári
Gera má ráð fyrir að um eða yfir þúsund ungmenni auk tíu þúsund annarra gesta staldri við á Egilsstöðum Verslunarmannahelgina 2025 en þar verður vettvangur næsta unglingalandsmóts Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) fyrir börn og unglinga frá 11 til 18 ára aldurs.
Mótinu þetta árið er nýlokið en það fór fram í Borgarnesi að þessu sinni. Þar kepptust kringum eitt þúsund ungmenni um að ná sem bestum árangri í hinum ýmsu íþróttagreinum og þar á meðal um 20 manna hópur ungmenna að austan sem kepptu undir merkjum Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA.) Tókst mótið mætavel þrátt fyrir miður gott veðurfar og náðu fulltrúar Austurlands ágætum árangri heilt yfir.
Í lok þess móts fór að bera á auglýsingum þess efnis að keppendur ættu að undirbúa sig fyrir næsta mót sem fram færi á Egilsstöðum en umsjón þess er í höndum UÍA með sveitarfélagið Múlaþing sem dyggan bakhjarl.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, staðfestir að Egilsstaðir séu næsta stopp fyrir þessa stóru hátíð íþróttanna og jafnframt að nokkuð sé um liðið síðan sú ákvörðun var tekin enda þurfi áhugasamir aðilar að óska eftir að halda slíkt stórmót með tveggja ára fyrirvara.
Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er undirbúningur hafinn austanlands vegna mótsins enda stórt mjög á landsvísu og í ýmis horn að líta. Liðin eru sjö ár síðan að Unglingalandsmótið var síðast haldið á Egilsstöðum en menn búa margir enn að þeirri reynslu að halda það mót þá.
Ungmennin úr UÍA sem þátt tóku í Unglingalandsmótinu í Borgarnesi um liðna helgi. Hópurinn stóð sig heilt yfir vel. Mynd GG