„Ungmenni þurfa að átta sig á að Ísland er ekki eini starfsvettvangurinn“

„Okkar hlutverk í VA er að undirbúa nemendur fyrir störf á almennum vinnumarkaði og/eða frekara nám,“ segir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, forsvarsmaður uppbyggingar alþjóðlegs samstarfs Verkmenntaskóla Austurlands við aðra verkmenntaskóla í Evrópu.


Verkmenntaskóli Austurlands hefur að undanförnu verið að byggja upp alþjóðlegt samstarf við aðra verkmenntaskóla í Evrópu og segir Lilja Guðný mikinn áhuga innan skólans á að bæta alþjóðlega færni nemenda og starfsmanna og að öðlast sterka alþjóðlega tengingu. Hún segir upphafspunktinn hafa falist í því að senda starfsmenn á tengslaráðstefnu fyrir starfsfólk í verknámsskólum í Dublin haustið 2016.

„Í kjölfarið höfum við verið að byggja upp samstarf við skóla í Danmörku, á Spáni og Þýskalandi. Við erum komin á þann stað að við höfum skoðað aðstæður í öllum þessum skólum og vinnum markvisst að því að efla samskiptin á milli skólanna og byggja upp traust tengsl sem eru lykilatriði í þessu samstarfi. Á yfirstandandi skólaári höfum við sent kennara í „starfspeglunar-heimsóknir“ (e. job-shadow) til allra þessara samstarfsaðila og einnig höfum við sent nokkra húsasmíðanemendur til Danmerkur í skiptinámsdvöl í samstarfsskóla okkar í Viborg á Jótlandi.“

Samstarfið teygir sig um allt samfélagið
Lilja Guðný segir að forsenda fyrir erlendum samstarfsverkefnum sem þessum sé styrkjaöflun en VA sótti um og hlaut styrk til þessa verkefnis úr Erasmus+, menntaáætlun Evrópusambandsins.

„Einnig var ákveðið að horfa að hluta til út fyrir landsteinana í endurmenntun starfsmanna og fjórir kennarar í vetur hafa sótt námskeið erlendis. Við höfum einnig tekið á móti gestum í vetur, bæði kennara og nemendur. Í apríl koma til okkar sex nemendur frá Danmörku sem munu sækja nám í VA en einnig starfsnám hjá Launafli, Síldarvinnslunni og Trévangi. Skrifstofunemendur frá Þýskalandi eru svo væntanlegir í haust sem munu sækja starfsnám hjá stofnunum Fjarðabyggðar. Á þessu má því sjá að þetta samstarf teygir sig víða innan samfélagsins og þátttaka og velvilji fyrirtækja og stofnana í Fjarðabyggð er afar mikilvæg forsenda þess að hægt sé að taka þátt í þessu samstarfi.“

Framtíðin kallar á sveigjanleika og samstarfshæfni
Lilja Guðný segir verkefnið afar mikilvægt. „Vegna aukinnar alþjóðavæðingar er afar mikilvægt að nemendur séu ekki aðeins undirbúnir fyrir frekara nám og starf á Íslandi heldur einnig á alþjóðlegum markaði. Ungmenni í dag þurfa að átta sig á að Ísland er ekki eini starfsvettvangurinn sem þeim býðst, heldur er öll Evrópa undir. Framtíðin kallar á sveigjanleika og samstarfshæfni og vegna alþjóðavæðingar er góð tungumálakunnátta orðin lykilhæfni. Með þátttöku í erlendu samstarfi teljum við okkur vera að undirbúa nemendur í auknum mæli fyrir það sem fram undan er.

Markmið okkar er að alþjóðlegt samstarf verði sjálfsagður þáttur í skólastarfinu. Að nemendur okkar og starfsfólk eigi raunverulegan möguleika á því að taka þátt í erlendu samstarfi, hvort sem er með því að fara erlendis eða með því að taka á móti erlendum gestum til okkar, að þátttaka sem þessi verði hluti af skólamenningunni.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.