Uppbygging við Búðarárfoss hlaut ekki náð við styrkveitingu

Fyrsti hluti uppbyggingar við Búðarárfoss fyrir ofan byggðina í Reyðarfirði hlaut ekki náð fyrir augum úthlutunarnefndar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða eins og vonir stóðu til í Fjarðabyggð.

Eins og greint var frá snemma í vetur lét sveitarfélagið Fjarðabyggð verkfræðistofuna Eflu fullvinna fyrir sig tillögur að bættu aðgengi og umhverfi í og við Búðarárfoss og Búðarárgilið en um það má lesa hér.

Í því skyni að koma verkefninu af stað sótti sveitarfélagið um styrk í Framkvæmdasjóðinn fyrir fyrsta hluta verksins sem felst í að reisa pall og leggja stíg í landinu alveg upp að fossinum sjálfum. Óskaði Fjarðabyggð eftir rúmum sautján milljónum króna en kostnaðarmat á þessum fyrsta hluta er áætlað rúmlega 21 milljón króna alls.

Svar stjórnar Framkvæmdasjóðsins barst í liðnum mánuði og reyndist neikvætt. Ástæðan fyrst og fremst mikill fjöldi umsókna á landsvísu en alls 125 aðilar óskuðu eftir styrkjum að þessu sinni fyrir tæplega þrjá milljarða króna þegar aðeins voru 538 milljónir til úthlutunar.

Töluverð umferð gangandi fólks er alla jafna að Búðarárfossinum en aðgengi lítið sem ekkert fyrir þá sem eiga erfitt um gang. Úr því átti að bæta með hönnun göngustíga og palls.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar