Upplýsingasíða um sameiningarviðræður komin í loftið

Síðasta föstudag var svausturland.is, upplýsingavefur um viðræður fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi opnuð. Síðunni er ætlað að miðla upplýsingum um framgang vinnunnar.

„Við settum inn nokkrar spurningar og svör til að kveikja í umræðunni en það er þegar komin fyrsta spurningin frá íbúa,“ segir Róbert Ragnarsson, ráðgjafi við viðræður um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Borgarfjarðarhrepps.

Hann segir síðunni ætlað að vera upplýsingasíða um verkefnið, ekki opinber síða sveitarfélags eða grunnur að heimasíðu sveitarfélags ef til sameiningar kemur.

Á síðunni má finna fundargerðir samstarfsnefndar, lýsingu á verkefninu framundan og þegar verkefninu vindur fram munu koma frekari upplýsingar um íbúafundi, skýrslur og aðrar upplýsingar um verkefnið.

„Við viljum halda utan um allar upplýsingar um verkefnið á einum stað til að auðvelda íbúum til að taka afstöðu þegar þar að kemur. Ég bind vonir við að vinnan fái umfjöllun og íbúarnir góðan valkost til að taka afstöðu til.“

Róbert segir vinnuna ganga vel og hann upplifi mikinn áhuga frá sveitarstjórnarfólki og þingmönnum. Næst á dagskrá er einmitt að hitta þingmenn og ráðherra í lok vikunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.