Úrkula vonar um að finna heitt vatn á Seyðisfirði

Litlir möguleikar eru á að finna nýtilegan jarðhita við húshitunar á Seyðisfirði. Þetta eru niðurstöðurnar eftir leit undanfarin 40 ár. Kannanir á Fjarðarheiði gáfu engar vonir.

Þetta kom fram hjá Magnúsi Ólafssyni, jarðefnafræðingi hjá Íslenskum orkurannsóknum, á fjölsóttum íbúafundi sem Rarik stóð fyrir síðasta fimmtudag vegna lokunar fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði.

Rarik hefur einnig haldið úti varmaveitu á Höfn. Hún verður lögð af eftir að heitt vatn fannst á svæðinu. Fram kom í máli Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra Rarik á fundinum, að fyrirtækið hafi lagt 750 milljónir króna til leitarinnar á Höfn.

Ekki hefur verið lagt út í þann kostnað á Seyðisfirði, þar sem leitað hefur verið að jarðhita til hitunar af og til frá árinu 1977, einfaldlega þar sem könnunarholur hafa ekki gefið tilefni til bjartsýni.

Árið 1998 var borað við Botnahlíð, ofarlega í bænum að sunnanverðu, og er þar hæsti hitastigullinn sem mælst hefur, 90°C. Til samanburðar má nefna að hitastigullinn í Hornafirði fór upp í 200°C áður en farið var að bora dýpra.

Það jók mönnum ekki bjartsýni að hitastigullinn minnkaði eftir því sem borað var dýpra. Leitað hefur verið að hita út með firðinum að Hánefsstöðum en á leiðinni virtist kólna. Þá var leitað að jarðhita samhliða rannsóknum fyrir Fjarðarheiðargöng síðustu ár.

„Það er engan hita að hafa í Fjarðarheiðinni. Það vantaði að útiloka að hitastigulshámarkið í botni fjarðarins teygði sig upp á heiðna“ sagði Magnús.

Magnús sagði möguleika að jarðhita væri að finna á belti sem liggur beint í norður-suður á Austfjörðum. Heita vatnið á Eskifirði komi úr því kerfi og sagnir séu um jarðhita í Mjóafirði. Háir fjallgarðar flækja hins vegar leitina. „Það er búið að bora þar sem það er hægt í Seyðisfirði.

Möguleikar á nýtilegum jarðhita til hefðbundinnar húshitunar eru litlir. Viðmiðin gefa ekki fyrirheit um að fara í frekari leit. Við þurfum að finna hitann en við þurfum líka að finna vatnið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.