![](/images/stories/news/umhverfi/nesk_20190828_0003_web.jpg)
Útflutningsverðmæti Austfirðinga 20,6 milljónir á mann
Verðmæti vöruútflutnings frá Austurlandi er tífalt meira á hvern einstakling heldur en að meðaltali á landinu. Úr fjórðungnum kemur rúmlega fimmtungur verðmætis alls sjávarafurða. Á sama tíma virðast umsvif ríkisins á svæðinu tiltölulega lítil.Þetta kemur fram í Efnahagsgreiningu Austurlands sem Analytica vann fyrir Austurbrú og var kynnt fyrir ríkisstjórn Íslands á fundi hennar á Egilsstöðum í síðustu viku.
Þar kemur fram að heildarútflutningur vara frá Austurlandi nemi 229 milljörðum króna eða 23% af heildarvöruútflutningi Íslendinga sem var 1.002 milljarðar miðað við árið 2022. Íbúar Austurlands eru 2,9% þjóðarinnar sem þýðir að ef þetta útflutningsverðmæti er brotið niður á einstaklinga nemur útflutningsverðmætið 20,6 milljónum króna á hvern Austfirðinga. Á landsvísu er það 2,6 milljónir.
Uppistaðan í þessari tölu er sjávarútvegur og ál. Verðmæti sjávarafurða frá Austurlandi er 86,4 milljarðar króna eða 21,7% af verðmæti útflutnings íslensks sjávarútvegs. Virði útflutts áls frá Alcoa Fjarðaáli í fyrra nam 143 milljörðum króna eða 35,5% af því áli sem flutt var út frá landinu þá.
Ferðaþjónustan skilar rúmum 44 milljörðum
Þetta þýðir að hlutdeild Austurlands í heildargjaldeyristekjum Íslands er 13,2%. Hlutfallið hækkar í 14,4% ef tekið er tillit til umsvifa ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Heildarumsvif ferðaþjónustunnar á Austurlandi eru metin á 44,2 milljarða króna. Það skiptist nokkurn vegin jafnt milli íslenskra og erlendra ferðamanna, gjaldeyristekjurnar eru taldar 21,3 milljarðar en heildartekjur af íslenskum ferðamönnum 22,9 milljarðar. Á landsvísu er þessu öðruvísi farið, heildarneysla erlendra ferðamanna er talin nema 390 milljörðum en innlendra 245 milljörðum.
Í samantektinni segir að ekki séu til gögn um neyslu ferðamanna eftir landshlutum. Þess vegna notast Analytica við þá aðferð að reikna út hlutfall gistinátta margfaldað með neyslu ferðamanna á landsvísu.
Tölurnar sýna að Austurland er vinsælla meðan íslenskra ferðamanna en erlenda. Analytica segir að fyrir því geti verið ýmsar ástæður, til dæmis torveldi samgöngur ferðina austur og Íslendingar þekki betur hvað svæðið bjóði. Til að nýta tækifæri í ferðaþjónustu á svæðinu betur þurfi líklega að bæta samgöngur og innviði.
Fram kemur að hlutfall gistinátta á Austurlandi séu 6,3% af heildinni, þar af 9,1% af gistinóttum íslenskra ferðamanna en 5,5% af gistinóttum erlendra ferðamanna. Nýting á gistirýmum á svæðinu hefur aukist síðustu fimm ár og var milli 40 og 50% í fyrra. Þar með er hlutfallsleg nýting orðin betri en á Norðurlandi og Vesturlandi/Vestfjörðum. Línurit sýnir að frá árinu 2018 hefur nýtingin batnað eystra meðan hún versnar á öðrum svæðum.
Um þriðjungur af orkusölu Landsvirkjunar
Í greiningunni er líka reiknað framlag Austurlands til þjóðarbúsins í gegnum orkusölu Landsvirkjunar, aðallega í gegnum stærstu vatnsaflsvirkjun landsins, Kárahnjúkavirkjun. Það er talið hafa verið tæpir 28 milljarðar króna í fyrra eða tæp 30% af heildarraforkusölu fyrirtækisins og um 35% af sölu þess til stórnotenda.
Hlutfallið lækkar sé reiknað með að Alcoa Fjarðaál greiði 10% lægra verð en aðrir stórnotendur. Þá er verðmætið rúmir 25 milljarðar eða 27% af heildarorkusölunni og 31% af sölu til stórnotenda.
Hvernig skiptast opinberu störfin milli landshluta?
Þessar tölur eru síðan settar í samhengi við opinber störf í fjórðungnum, sem reiknuð eru út frá stöðugildum greidd af Fjársýslunni, hjá opinberum hlutafélögum og stofnunum eða stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum.
Á Austurlandi eru þau 582 eða 2,2% af heildarstöðugildum ríkisins. Þau eru flest á höfuðborgarsvæðinu, rúmlega 19.000 eða tæp 72%. Sé horft á stöðugildi miðað við fjölda íbúa, þá er hlutfallið 5,2 störf á hverja 100 íbúa á Austurlandi, hið fjórða lægsta í samanburði landshluta. Hlutfallið er hæst á höfuðborgarsvæðinu, 7,8. Í niðurlagi samantektarinnar segir að umsvif ríkisins virðist tiltölulega lítil í landshlutanum þótt það þarfnist nánari greiningar.
Þar er einnig bent á að tækifæri í ferðaþjónustu og áformuð aukning fiskeldis kunni að auka framleiðslu og gjaldeyristekjur af Austurlandi. Aukin umsvif kalli á aukið vinnuafl og krefjist bættra innviða og samganga. Til að mynda hafi Austfirðingar bent á að betra aðgengi fyrir stórar þotur að Egilsstaðaflugvelli, sem þegar fljúgi yfir svæðið á ferðum milli heimshorna, geti skapað möguleika, til dæmis aukið útflutningsverðmæti úr sjávarútvegi og fiskeldi.