Útskorið leikfang fannst í fornleifauppgreftrinum í Firði

Hlutur sem virðist útskorið leikfanga dýr fannst í byrjun vikunnar í fornleifauppgreftrinum í bæjarstæði Fjarðar á Seyðisfirði. Fjöldi gripa hefur áfram fundist í Firði en uppgreftrinum lýkur síðar í þessum mánuði.

„Við erum að skoða gripinn nánar en við túlkum hann enn sem leikfang og síðan eru ýmsar skoðanir á því hvaða dýr þetta er,“ segir dr. Ragnheiður Traustadóttir sem stýrir uppgreftrinum í Firði.

Ragnheiður segir gripinn helst minna á björn eða svín, þótt kenningar hafi verið settar fram um fleiri dýr svo sem íslenska hundinn. „Það finnst samt þegar haldið er á gripnum að þetta er ekki hundur.“

Gripurinn er 5 sm. langur og 2,7 sm. breiður, gerður úr gjóskubergi og afar vel varðveittur. „Annað eyrað er aðeins skaddað. Leikfangið stendur sjálft á sléttum fleti. Það er sjaldgæft að leikföng finnist í uppgröftum hérlendis en þó fyllilega eðlilegt enda voru börn á þessum tíma sem öðrum.“

Fleiri gripir hafa fundist úr sambærilegu bergi í Firði. „Þeir taflmenn sem við höfum fundið eru líka úr því. Bara í sumar höfum við fundið 70 slíka. Við erum líka að finna alls konar afskurð af þessu bergi, svo sem hálfkláraða taflmenn. Það finnst ekki mikið af þessu bergi á Seyðisfirði en það er töluvert á Borgarfirði og víða á Austfjörðum. Rauðabergið, sem eru rauðu millilögin í fjöllunum hér, er einn hluti þessa. Þetta er mjúkur steinn sem auðvelt er að tálga.“

Ríkulegur uppgröftur af gripum


Leikfangið fannst í eldri skálanum á svæðinu sem áætlað að hafi verið í notkun frá 940-1000. Fjöldi anarra gripa frá þeim tíma hafa komið í ljós í sumar. „Bara í sumar erum við komin með yfir 600 gripi frá þessum tíma. Auk taflmannanna erum við með snældusnúði og fleiri gripi úr gjóskubergi.

Í gær fannst borsteinn og annar í fyrra en ég þekki ekki til þess að fleiri slíkir hafi fundist hérlendis. Í síðustu viku fannst óvenju stór rafperla og um daginn bergkristall,“ segir Ragnheiður.

Uppgröfturinn hófst sumarið 2021 en grafið er á svæði sem raska þarf vegna uppbyggingar snjóflóðavarna undir fjalli Bjólfi. Umfang uppgraftarins hefur vaxið mjög frá því sem fyrst var áætlað enda mun meira komið í ljós en nokkur átti von á, til dæmis kuml í lok fyrsta sumarsins.

Þetta er hins vegar síðasta sumarið sem grafið verður. Verið er að klára að grafa niður í gegnum gólf húsanna og á því að vera lokið fyrir fyrsta september. Leiðsögn er um uppgraftarsvæðið alla föstudaga klukkan 14:00.

Mynd: Antikva


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar