Vandræði með póstútburð á Eskifirði

Eskfirðingar eru óhressir með þjónustu Íslandspósts en miklar tafir hafa orðið á útburði þar að undanförnu. Talsmaður Póstsins segir forgangsmál hjá fyrirtækinu að leysa málið sem skýrist af manneklu.

„Það er rétt að upp hafa komið vandræði með útburð á Eskifirði nokkrum sinnum undanfarna mánuði. Við höfum verið undirmönnuð þar í einhvern tíma þar sem mjög erfiðlega hefur gengið að fá fólk í starfið.

Ofan á það hafa bæst við veikindi sem hafa verið óvenju mikil nú á vormánuðum,“ segir Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Íslandspósts.

Hún segir að starfsmaður frá Neskaupstað hafi komið yfir á Eskifjörð til aðstoðar „þegar ástandið hefur verið verst.“

Eskfirðingar sem Austurfrétt ræddi við segja að póstur hafi oft borist seint þangað og jafnvel ekki verið borið út heilu eða hálfu vikurnar, meðal annars í liðinni viku. Anna Katrín segir að útburður hafi fallið niður að hluta á Eskifirði einhverja daga en aldrei heila viku í einu.

„Við leggjum mikla áherslu á að halda uppi þeim gæðastöðlum sem við vinnum eftir og það er forgangsverkefni hjá okkur að leysa þennan vanda á Eskifirði.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.