Vandratað milli þess að gleðjast yfir góðri stöðu og sofna ekki á verðinum

Öllum þeim átta Austfirðingum, sem til þessa hafa smitast af Covid-19 veirunni, er batnað. Umdæmislæknir sóttvarna segir þó nauðsynlegt að íbúar haldi áfram vöku sinni og fylgi fyrirmælum því staðan geti breyst hratt. Hann segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna Austurland hafi sloppið betur en aðrir landshlutar frá faraldrinum til þessa.

„Það er jákvætt að hér er ekki lengur neitt þekkt smit og þeim sem greinst hafa öllum batnað. Við getum ekki gefið út að hér sé smitleysi, aðeins að hér er ekki lengur neitt þekkt virkt smit.

Það er vandmeðfarið að gleðjast í senn yfir því að fáir hafi veikst og hér sé ekkert virkt smit og láta þá gleði ekki verða til þess að við sofnum á verðinum. Þá getum við hratt verið í annarri og verri stöðu,“ segir Pétur Heimisson, umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi.

Allir sýnt ábyrgð

Í gær var staðfest að ekkert virkt smit sé enn í fjórðungnum og allir þeir átta sem greinst hafi með veiruna sé batnað. Ekki hefur greinst smit á Austurlandi frá 9. apríl.

Pétur segist ekki kunna skýringar á því hvers vegna tíðni smita á Austurlandi sé lægri en í öðrum landshlutum. Til dæmis hafi verið fylgt sömu viðmiðum um sýnatöku og annars staðar. Hann leggur hins vegar áherslu á að samstillt átak allra landsmanna hafi orðið til þess að faraldurinn sé nú á hröðu undanhaldi.

„Sú staða er ánægjuleg og er ekki síst að þakka því að allir hafa lifað eftir því mottóinu að hver og einn sé hluti af almannavörnum og sýnt ábyrgð. Það á við um íbúa Austurlands sem og aðra landsmenn. Ég get því ekki útskýrt hví svona fá smit hafa verið hér og það er ekki víst að við fáum nokkurn tíma skýringu á því.“

Pétur bendir meðal annars á að lág smittíðni sé áhugaverð í ljósi þess að þegar mest lét hafi um 250 manns á svæðinu verið í sóttkví. Meðal þeirra voru 15 starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands sem sendir voru í sóttkví eftir að starfsmaður stofnunarinnar veiktist. Enginn þeirra smitaðist. „Það er margt um þessa veiru sem við þekkjum ekki enn eða skiljum,“ segir Pétur.

Á góðum stað án samgöngubanns

Ekki hefur greinst smit á Austurlandi frá 9. apríl. Aðspurður segir Pétur að aldrei hafi komið til umræðu hvort hægt væri að létta einhverjum takmörkunum samkomubanns fyrr eystra en annars staðar.

Um tíma var hins vegar rætt um hvort loka ætti landshlutanum með samkomubanni. „Sú umræða átti sér stað enda margt fólk sem eðlilega spurði um það. Við áttum vandað og gott samráð við sóttvarnalækni og embætti ríkislögreglustjóra um það og niðurstaðan var að gera það ekki. Ég hef engu við þá niðurstöðu að bæta og við erum á þessum góða stað í dag.“

Austfirðingar ekki viðkvæmari en aðrir

Á móti hefur undanfarna daga mátt greina umræðu um hvort Austfirðingar séu í viðkvæmari stöðu en aðrir þar sem ekkert ónæmi hafi myndast meðal íbúa vegna lágs smithlutfalls. Pétur telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því. „Skimanir Íslenskrar erfðagreiningar benda til þess að um það bil 1% landsmanna hafi fengið veiruna. Ég sé ekki stóran mun á hvort smithlutfall samfélags er 1% eða 0%. Ég hef ekki áhyggjur af því að Austurland sé verr sett en landið almennt vegna þessa.“

Enn er vika í að byrjað verði að aflétta takmörkunum samkomubanns. Frá næsta mánudegi verður leyfilegt að hittast í 50 manna hópum í stað 20 áður, hárgreiðslustaðir mega opna á ný, íþróttaæfingar hefjast, framhaldsskólar opna aftur og takmarkanir í grunn- og leikskólum verða afnumdar. Áfram verður þó í gildi reglan um samskiptafjarlægðina og fleiri takmarkanir.

„Við verðum áfram að virða og fara eftir öllum reglum. Fjórði maí er ekki kominn enn og við verðum öll að kynna okkur vel hvernig reglurnar breytast þá. Við þurfum áfram að virða tveggja metra regluna, handþvott og sprittnotkun. Næsta skref verður væntanlega tekið um mánaðarmótin maí/júní, en það er háð því hvernig næstu vikur verða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.