Vanmat olli eldsneytisþurrð hjá N1 á Egilsstöðum
Í um klukkustundarskeið um helgina var ekkert eldsneyti að fá á þjónustustöð N1 á Egilsstöðum þegar eldsneytistankar tæmdust vegna mikillar sölu en óvenju margt ferðafólk hefur dvalið austanlands síðustu vikuna eða svo.
Það er Olíudreifing sem sér um að fylla á tanka bensínstöðva N1 og Olís á Austurlandi og er fylgst með sölu rafrænt af hálfu fyrirtækisins auk þess sem sérstakar áætlanir eru gerðar fyrir stóra daga eða helgar að sögn Árna Gunnarssonar forstjóra.
„Í raun var þarna um ákveðið vanmat að ræða af okkar hálfu. Við tökum alltaf mið af ákveðnu meðaltali á hverja stöð og tökum inn í reikninginn ef um stóra daga er að ræða eins og vitað var að yrði fyrir austan. Því miður dugði spá okkar ekki því salan fór töluvert umfram það sem við gerðum ráð fyrir. En við brugðumst strax við, fylltum á tankbíl á birgðastöð okkar á Reyðafirði og fluttum til Egilsstaða. Það var komið meira eldsneyti um klukkustund eftir að allt tæmdist.“
Aðspurður segir Árni að engir aðrir staðir sem fyrirtækið þjónustar á Austurlandi hafi verið tæpir fyrir eða um helgina en heilt yfir á landsvísu var salan mjög góð þó ekki hafi hann á hreinu hvort hún hafi verið meiri nú en á sama tíma á síðasta ári.
Enga hleðslu að fá
Annað sem fór nokkuð fyrir brjóst ferðafólks á rafbílum var að ekki var hægt að gefa bílunum straum við þjónustustöð N1 á Egilsstöðum. Það vissulega óheppilegt að sögn Jóns Viðars Stefánssonar, rekstrarstjóra þjónustustöðva fyrirtækisins, en ástæðan sú að verið er að setja upp mun öflugari hleðslustöð og þeirri vinnu ekki lokið.
„Það er búið að taka niður gamla 50 kílóvatta stöð sem var á staðnum og við eiginlega erfðum frá Orku náttúrunnar á sínum tíma. Þar erum við að setja upp 200 kílóvatta stöð í staðinn og þeirri vinnu ekki lokið. Ég get ekki lofað tiltekinni dagsetningu hvenær nýja stöðin verður komin í gagnið en þetta er í forgangi hjá okkur. Þetta er tímafrekt verkefni því við erum að þessu um allt land og þetta er viðbót við samstarf okkar við Teslu um að setja upp hraðhleðslustöðvar um land allt og þar á meðal á Egilsstöðum. Ég á von á að nýja stöðin okkar verði uppsett og tilbúin á Egilsstöðum síðar í sumar.“