Var ráðherra að styrkja stöðu verslunarinnar í búvörusamningum?

Þórunn Egilsdóttir, bóndi á Hauksstöðum í Vopnafirði og þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, er gagnrýnin á breytta skipan nýs ráðherra á samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga.


Þórunn tók málið upp á Alþingi í síðustu viku og benti þá að nýr ráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefði skipt úr þremur af fimm ráðherraskipuðum fulltrúum í samráðshópnum. Þórunn sagðist hvergi hafa séð skýringu á þeirri ákvörðun.

„Hvers vegna ekki bara öllum? Leyndust kannski í hópnum einstaklingar of hliðhollir bændum? Spyr sú sem ekki veit.“

Hún velti einnig fyrir sér hlutverki fulltrúa atvinnurekenda í hópnum. „Hver er aðkoma heildsala að samningum bænda og ríkisins?“

Þórunn var gagnrýnin á aðkomu verslunarinnar að samningunum. „Fljótt á litið virðist ráðherra vera að styrkja stöðu verslunarinnar sem á enga aðkomu að samningunum. Samningurinn er við bændur og þeim ber samkvæmt honum að framleiða matvöru að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Fulltrúar bænda leggja áherslu á mikilvægi þess að sátt náist um íslenskan landbúnað. Það er okkur öllum mikilvægt. Útspil ráðherra virðist ekki vera lóð á þá vogarskál.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar