Varað við slitlagsblæðingum á austfirskum vegum

Vegagerðin varar vegfarendur á Austurlandi við mögulegum slitlagsblæðingum. Slitlagskögglar sem brotna af bílum geta verið varasamir.


Varað er við blæðingum á milli Egilsstaða og Norðfjarðar, einkum þó milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Mikilvægt er að draga úr hraða þegar bílar mætast og skoða vel dekkin áður en farið er í lengri ferðir og hreinsa þau ef vart verður við tjöru.

Eftir snjókomuna um helgina er færð tekin að spillast og víða er fljúgandi hálka í fjórðungnum. Ófært er til Mjóafjarðar og yfir Öxi og Hellisheiði.

Vegirnir heyra allir undir G-reglu í vetrarþjónustu. Þá er í mesta lagi mokað tvisvar í viku á meðan snjólétt er á tímabilinu 1. nóvember til 20. mars. Ekki er farið sérstaklega yfir færð á þeim, frekar en Breiðdalsheiði sem einnig er í flokknum, í skeytum Vegagerðarinnar.

Í hlýindaköflum við snjóléttar aðstæður kann að vera vikið frá þessum reglum en Vegagerðin metur hvort viðkomandi mokstur sé raunhæfur með tilliti til notagildis og kostnaðar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.