Varað við úrhellisrigningu annað kvöld: Gæti raskað samgöngum

Veðurstofan varar við mikilli úrkomu á sunnanverðum Austfjörðum sem hefst á fimmtudagskvöld og stendur í rúman sólarhring. Hætta er á hlaup geti komið í ár og læki.

„Seint á morgun eða annað kvöld kemur mikil rigning sem á að standa í rúman sólarhring. Sólarhringsúrkoman gæti vel farið yfir 100 mm,“ segir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan gaf í dag út appelsínugula viðvörun fyrir Austfirði og Suðausturland sem gildir frá því klukkan sex á fimmtudagskvöld fram undir miðnætti á föstudag. Það þýðir að von er á veðri sem getur haft mikil áhrif, ár og lækir vaxi sem raskað geti samgöngum.

Von er á lægð úr suðri og henni fylgja skil sem rigna mun mikið úr. Samhliða rigningunni eru hlýindi, fimm stig og meira auk hvass vindar úr suðaustri.

Von er á úrkoman verði mest syðst í fjórðungnum en úr henni dragi eftir því sem norðar dregur.

Nokkuð hefur rignt eystra í dag og er sólarhringsúrkoman víða um eða yfir 20 mm. „Það styttir upp með köflum í kvöld og nótt. Það sem þið hafið fengið í dag er hátíð miðað við það sem er í vændum,“ segir Haraldur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar