Varað við úrkomu og hættu á skriðuföllum

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austfirði frá miðnætti. Á sama tíma er varað við auknum líkum á skiðuföllum.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að búast megi við talsverðri eða mikilli rigningu frá miðnætti fram til klukkan átta annað kvöld. Því er beint til íbúa að huga að niðurföllum til að forðast tjón.

Í nánara yfirliti ofanflóðadeildar segir að seint í kvöld komi úrkomubakki inn á Austfirði sem teygi sig frá Borgarfirði suður í öræfi. Úrkomuákefðin geti náð allt að 10 mm. á klukkustund, mest til fjalla.

Annar úrkomubakki kemur svo strax í kjölfarið seinni part mánudags, með meiri ákefð til bæði fjalla og láglendi. Spáð er allt að 130 mm. uppsafnaðri úrkomu til fjalla á þessum tíma.

Það getur leitt til vatnavaxta í ám og lækjum og hættu á aurskriðum í farvegum. Eins geta aurskiður fallið þegar jarðvegur er vatnsmettur og grjót hrunið þegar vatnið losar um það í klettum.

Vegir á Austfjörðum liggja víða undir bröttum hlíðum og er fólki bent á að sýna aðgát á ferð undir þeim, ekki dvelja lengi innan farvega og horfa vel í kringum sig. Minnt er á að skriður geti fallið skyndilega þótt rigningin sjálf sé búin.

Þá er hvatt til þess að skriður séu tilkynntar til Veðurstofunnar í síma 522-6000 eða í gegnum form á vef hennar sem einnig er notað til að tilkynna snjóflóð. Gott er að hafa mynd af skriðum og nákvæma staðsetningu auk tímasetningu, hvenær skriða fór eða hvenær fólk varð vart við skriðu.

Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar