Varla ástæða til að veiða ref í fólkvanginum

Sérfræðingar Náttúrustofu Austurlands telja ekki ástæðu til að veiða ref í Fólkvangi Neskaupstaðar. Öðru máli gegnir hins vegar um mink.

Þetta kemur fram í umsögn Náttúrustofunnar um áform Fjarðabyggðar um meindýraeyðingu á svæðinu. Umsögnin er í takt við eldri umsagnir sem stofan hefur gefið um sama erindi.

Þar er bent á að refaveiðar hérlendis séu fyrst og fremst til að koma í veg fyrir tjón af völdum refanna svo sem á búfénaði eða náttúru, en tjón af völdum villtra dýra er nánar skilgreint í lögum.

Engar nytjar eru í Fólkvanginum og ekki talið að refurinn ógni heilsu manna eða búfénaðar þar. Helst er að hann hafi neikvæð áhrif á fjölda fugla, enda eru fuglar aðalfæða refs hérlendis allan ársins hring. Bent er á að ekki séu til tölur til að styðja fullyrðingar um áhrif á varpfugla á svæðinu.

Annars staðar hafi fuglum ekki fækkað þótt ref megi fjölgað. Á nokkrum stöðum eru þó til staðar staðbundin áhrif á varp. Þá eru talin takmörkuð tengsl milli stofnstærðar rjúpu og refs.

Heimskutarefurinn er eina villta landsspendýrið á Íslandi, hefur verið hér frá því fyrir landnám og er hluti af vistkerfi landsins. Sífellt vinsælla verður að sjá villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi og er vakin athygli á að refaveiðar í vinsælu útivistarsvæði geti haft neikvæð áhrif á ímynd svæðisins.

Niðurstaða Náttúrustofunnar er því sú að ekki sé ástæða til að veiða ref í fólkvanginum út frá vistfræðilegum sjónarmiðum. Veiðar eigi aðeins að leyfa til að koma í veg fyrir raunverulegt og vel skilgreint tjón. Hvatt er til þess að sveitarfélagið Fjarðabyggð setji stefnu um veiðar á svæðinu vegna aukinnar ásóknar veiðimanna og verði það tengt við reglulega úttekt á dýralífinu þar.

Náttúrustofan telur hins vegar annað eiga við um minkinn sem sé ágeng tegund í íslenskri náttúru. Því sé ekkert til fyrirstöðu sem hamli veiðar á honum nema að lágmarka verði ónæði gesta í fólkvanginum.

Í bókun eigna-, skipulags-, og umhverfisnefndar segir að veiðar á refi og mink í fólkvanginum verði með sama sniði og undanfarin ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar