Vatnajökulsþjóðgarður ekki lengur sjálfstæð stofnun frá næstu áramótum
Heilmiklar breytingar verða á stjórnskipan umhverfismála um næstu áramót þegar stór hluti Umhverfisstofnunar breytist í Náttúruverndarstofnun. Um leið hættir Vatnajökulsþjóðgarður að vera sjálfstæð ríkisstofnun.
Frumvarp þessa efnis úr ranni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, var samþykkt fyrir þinglok í síðasta mánuði. Hugmyndin er að í kjölfarið verði til stærri og kröftugari stofnanir sem efli þekkingar- og lærdómssamfélagið með samnýtingu þekkingar, innviða og gagna.
Málefni Vatnajökulsþjóðgarðs falla munu því falla undir hina nýju Náttúruverndarstofnun strax frá næstu áramótunum.
Það valddreifða stjórnfyrirkomulag sem verið hefur við lýði í Vatnajökulsþjóðgarði, þar sem bæði ríki og viðkomandi sveitarfélög eiga fulltrúa fær að halda sér að mestu en sú breyting þó gerð að umhverfissamtök sem hafa átt fullgildan fulltrúa hingað til munu einungis fá áheyrnarfulltrúa frá áramótum. Ekki þótti rétt að hagsmunasamtök fengju fullgildan fulltrúa í stjórn þar sem ákvörðunartaka á sér stað með heildarhagsmuni þjóðgarðsins í huga.
Svæðisstjórn skal móta og fylgja eftir settri stefnu auk þess að þróa þá þjónustu sem veitt er á svæðinu en í henni sitja fjórir formenn þeirra fjögurra svæðisráða sem Vatnajökulsþjóðgarði er skipt í auk tveggja fulltrúa ráðherra og eins fulltrúa frá umhverfissamtökum. Útivistar- og ferðamálasamtök munu eiga þar áheyrnarfulltrúa.
Helstu verkefni svæðisráðanna eru sem fyrr að ræða stjórnunarhlutverk annars vegar og hins vegar ráðgefandi hlutverk en í hverju og einu svæðisráði verða sex fulltrúar. Þrír þeirra tilnefndir af sveitarstjórnum á viðkomandi rekstrarsvæði og þrír einstaklingar úr röðum ferðamála-, útivistar- og umhverfissamtaka.