„Verkefnið er allavega komið á koppinn“

Minjastofnun Íslands úthlutaði fjórum milljónum til Fornleifafræðistofunnar til frekari rannsókna á húsarústum sem fundust við fornleifauppgröft á Stöð í Stöðvarfirði í nóvember.



Dr. Bjarni Einarsson fer fyrir verkinu, en hann fann klár merki um mannabústað í uppgreftri sínum í Stöð síðastliðið haust. Rannsóknir úr viðarkolsýni segja minjarnar frá 9. öld.

Í samtali við Austurfrétt í janúar síðastliðinum sagði Bjarni að frekari rannsóknir væru nauðsynlegar til þess að sjá hvort sýnið sé úr sjálfum landnámsskálanum eða byggingu honum tengdum og var hann því að vonum ánægður þegar styrkurinn var í höfn.

„Þetta þýðir að ég fer aftur af stað með uppgröft í haust, ég er ekki búin að tímasetja hvenær, en ég er að bíða efrir mótframlagi frá heimamönnum.

Þetta verður langur uppgröftur, ég er að horfa á verkefnið til allavega fimm ára, það fer þó eftir mótframlagi frá heimamönnum og því hve marga sjálfboðaliða ég fæ með mér í verkefnið, en ég verð væntanlega með fornleifafræðing frá Nýfundnalandi og tvo nema í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Það er alltaf gaman að fá styrk og ekki skemmir fyrir að fá þann hæsta, þó svo að hann sé ekki nema upp í hluta verkefnisins. Vekefnið er allavega komið á koppinn og nú er bara að halda vel á spöðunum til þess að fá áframhaldandi styrki næstu árin,“ segir Bjarni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.